Mikil aukning á sjúkraflutningum hjá Brunavörnum Suðurnesja
Á árinu 2008 hefur orðið mjög mikil aukning á sjúkraflutningum hjá Brunavörnum Suðurnesja og stefnir enn og aftur í nýtt metár. Árið 2007 var metár og var þá farið í 1760 sjúkraflutninga. Í vikunni fyrir jól hafa starfsmenn BS farið í 2020 sjúkraflutninga. Stefnir í að aukningin á milli ára verði um 18 %.
Er þetta eins og verið hefur undafarin þrjú ár því að frá árinu 2005 hefur aukningin verið á þessum nótum. Er því ljóst að álagið á starfsmönnum Brunavarna Suðurnesja hefur verið mikið á undanförnum árum og virðist ekkert lát vera á.
Eru þá ótalin þau brunaútköll og önnur útköll tengd slökkviliðinu sem verið hafa á árinu. Ef sá niðurskurður sem kynntur hefur verið almenningi á þjónustu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja verður að veruleika er ekki ólíklegt að það muni kalla á aukna þjónustu við íbúa frá Brunavörnum Suðurnesja.
Þrátt fyrir niðurskurð eins og allar aðrar stofnanir hafa orðið fyrir munu starfsmenn B.S. áfram sem hingað til sinna sínu hlutverki af kostgæfni og mun almenningur alltaf geta treyst því að fá eins góða þjónustu og mögulegt er, segir Sigurður Skarphéðinsson, varaslökkviliðsstjóri Brunavarna Suðurnesja í pistli á vef Brunavarna Suðurnesja.