Mikil ásókn í nám hjá Keili - 200 nýjar íbúðir fyrir haustið
Á sjöunda hundrað umsókna um skólavist bárust Keili áður en umsóknarfrestur rann út fyrir helgi. Um 300 sæti eru til ráðstöfunar í skólum Keilis þannig að ljóst er að meirihluti umsækjenda verður frá að hverfa.
Í tilkynningu frá Keili kemur fram að flestar umsóknir hafi borist um nám í háskólabrú, eða 268, en einnig bárust 157 umsóknir um nám við heilsu- og uppeldisskóla og 163 umsóknir um nám við samgöngu- og öryggisskóla.
Þá hafa þegar rúmlega 30 umsóknir borist til skóla skapandi greina þar sem tekið verður við 20 nemendum í sérhæft frumkvöðlanám á háskólastigi. Námið er í samstarfi við verkfræðideild Háskóla Íslands og Nýsköpunarmiðstöð og rennur umsóknarfrestur þar út í ágúst.
Margvíslegar námsleiðir eru í boði hjá Keili, miðstöðvar fræða, vísinda og atvinnulífs. Auk frumkvöðlanámsins og háskólabrúar býður Keilir næsta haust upp á sérhæft leikskólaliðanám, nám fyrir sjúkraliða, nám í einkaþjálfun, afreksnám í íþróttum og nám í flugþjónustu.
Innan skóla Keilis er unnið að þróun fleiri námsbrauta bæði á framhaldskóla- og á háskólastigi sem verða kynntar á haustdögum.
Búist er við því að um 1800 manns verði búsett á Vallarheiði, gamla varnarsvæðinu, í haust eftir að íbúðum í útleigu verður fjölgað um tæplega 200. Mikil ásókn hefur verið í búsetu á svæðinu og eru nú 493 á biðlista eftir húsnæði hjá Keili.