Mikil ánægja með Aðventugarðinn
Menningar- og atvinnuráð Reykjanesbæjar lýsir ánægju sinni með hvernig til tókst með Aðventugarðinn og leggur áherslu á að haldið verði áfram að vinna að þróun hans enda sé ljóst að ánægja bæjarbúa með hann sé almenn og mikil eins og niðurstöður viðhorfskönnunar á Aðventugarðinum gefur skýrt til kynna.
Alls tóku 150 manns þátt í að svara könnunni. Þar sögðust 96% ánægðir með tilkomu Aðventugarðsins og 97% töldu líklegt að þeir myndu heimsækja hann aftur. Flestum fannst jólaljósin vera það skemmtilegasta við Aðventugarðinn auk þess sem það vakti hrifningu að kíkja í sölukofana, á eldstæðin og heilsa upp á jólasveinana og Grýlu. Þá bárust einnig góðar ábendingar um hvernig hægt er að gera Aðventugarðinn enn betri.
Menningar- og atvinnuráð þakkar þeim sem stóðu að undirbúningi og framkvæmd verkefnisins og einnig bæjarbúum fyrir jákvætt viðhorf og virka þátttöku. Ráðið sendir líka þakkir til þeirra sem stóðu að þrettándadagskrá í Reykjanesbæ á þessum óvenjulegu tímum sem krefjast nýrra lausna, segir í fundargerð síðasta fundar Menningar- og atvinnuráðs Reykjanesbæjar.