Mikil aflaaukning í Grindavík: „Ný innsigling og koma nýrra togara er skýringin“ - segir Sverrir Vilbergsson hafnarstjóri
Alls bárust um 1,320 tonn á land í Grindavík í síðustu viku og þar af voru 690 tonn af loðnu og 194 tonn af frystum afurðum. Af bátum og ísfisktogurum komu um 420 tonn og munaði þar mestu að fjórir stórir línubátar lönduðu í vikunni og var Hrungnir með mestan afla þeirra, um 82,6 tonn í einni löndun. Frystitogarinn Gnúpur landaði tvisvar í síðustu viku og var
verðmæti aflans um 50 milljónir króna, en afli ísfisktogara og dagróðrabáta var tregur í vikunni.
Grindavík í fremstu röð
Í bráðabirgðatölum Fiskistofu fyrir tímabilið 1.janúar-31. október 2000 má lesa að Grindavík er í fjórða sæti, ef talað er um landaðan afla og hefur verið landað hér fyrstu 10 mánuði ársins tæplega 120 þúsund tonnum. Mest hefur verið landað á Neskaupstað 136 þúsund tonnum. Ef skoðaðar eru tölur um landaðan botnfiskafla er Grindavík í öðru sæti með um 37 þúsund tonn þar af eru 18,300 tonn þorskur. Mestu hefur verið landað af botnfiski í Reykjavík um 40 þúsund tonn, þar af er þorskur 12,150 tonn og karfi 16,600 tonn. Á sama tíma í fyrra hafði verið landað hér 72 þúsund tonnum og af því voru um 30 þúsund tonn af botnfiski.
Ný innsigling og togarar
Að sögn Sverris Vilbergssonar, hafnarstjóra í Grindavík, má skýra þessa aukningu með opnun nýrrar inngsiglingar fyrir rúmu ári síðan. „Í framhaldi af því fóru báðir frystitogarar Þorbjörns h.f. að landa hér, en Hrafn Sveinbjarnarson hafði ekki komist hér inn fyrr. Í árslok 1999 bættist sá þriðji við og hafa þeir landað hér mestöllum afla sínum það sem af er þessu ári. Það má því segja að afli tveggja frystitogara hafi bæst við á árinu. Afli stóru línbátanna var einnig mjög góður fram að nýju kvótaári en hefur verið misjafn síðan og þorskurinn smærri en fyrr“, segir Sverrir.
Við sameiningu Þorbjörns, Fiskanes og Valdimars bættust tvö öflug fiskiskip við flota Grindavíkur og hefur Þuríður Halldórsdóttir landað í Grindavík að staðaldri síðan. Valdimar hefur einnig landað nokkrum sinnum í Grindavík í haust.
Aldrei meira af kolmunna
Það er ekki aðeins í botnfiski sem aukning hefur orðið á lönduðum afla því í uppsjávarfiski hefur af sömu ástæðum og fyrr er greint frá, orðið umtalsverð aukning.
„Stærri skip hafa verið að bera þennan afla til okkar og aldrei hefur borist hingað jafnmikið af kolmunna og á þessu ári, eða tæplega 12,000 tonn, en kolmunni er eingöngu veiddur í flotvörpu af kraftmiklum skipum“, segir Sverrir en það eru Samherjaskipin Þorsteinn og Vilhelm Þorsteinsson, sem hafa komið með mest af kolmunna.
„Það var stór stund í sögu Grindavíkurhafnar þegar Vilhelm Þorsteinsson sem er 3,240 brúttótonna skip, sigldi í fyrsta sinn til hafnar hér og gleðilegt að svona stórt skip skuli
geta athafnað sig hér við góðar aðstæður. Auk kolmunnans hafa borist hér á land um 65 þúsund tonn af loðnu og 6,400 tonn af síld, sem unnið hefur verið í verksmiðjunni hér og eru afurðir sem skipað hefur verið út um 23 þúsund tonn. Ekki verður annað sagt en að árið 2000
hafi verið gott aflaár hjá okkur og vonandi verður framhald þar á“, segir hafnarstjórinn að lokum.