Mikið tjón í heitavatnsleka í gömlu lögreglustöðinni í Grænási
Heitavatnslögn gaf sig í gömlu lögreglustöðinni í Grænási í Reykjanesbæ með þeim afleiðingum að mikið tjón varð í húsinu. Slökkvilið Brunavarna Suðurnesja var kallað til í hádeginu en þá fossaði sjóðandi heitt vatn út úr húsinu. Lögnin sem gaf sig var í lofti og flæddi sjóðandi heitt vatn um allt húsið.
Þegar inn var komið mátti glögglega sjá eyðilegginguna en allir innviðir hússins eru soðnir eftir að hafa verið í gufubaði í nokkurn tíma. Menn tóku eftir því að ekki var allt með felldu þegar heitt vatn fossaði út undan útidyrahurðum á húsinu. Vatnstaumar voru einnig undan mörgum gluggum en innandyra var allt á floti og mikill hiti og raki í lofti.
Engin starfsemi var í húsinu. Lögreglustöðin var flutt á Brekkustíg fyrir nokkrum misserum. Undanfarið hafði verið unnið að endurbótum á húsinu. Múrhúð hafði verið endurnýjuð og innandyra voru hugmyndir um að innrétta gistiheimili.
VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson