Mikið tjón í eldsvoða á nýársnótt (Myndskeið)
Íbúð í fjölbýlishúsi við Fjörubraut á Ásbrú í Reykjanesbæ er mikið skemmd eftir eldsvoða á nýársnótt. Slökkvilið Brunavarna Suðurnesja og lögregla fengu útkall rétt fyrir kl. 04 í nótt og þá logaði mikill eldur á svölum á jarðhæð.
Rúður voru sprungnar og svartan reyk lagði út um glugga á íbúðinni. Íbúar hússins voru komnir út úr húsinu þegar viðbragðsaðilar komu á staðinn.
Þetta er önnur nóttin í röð sem mikill bruni verður í Reykjanesbæ. Í fyrrinótt brann útihús við Merkines í Höfnum til grunna.