Mikið tjón í bruna á skemmtistað við Hafnargötu

Mikið tjón varð af völdum elds á skemmtistað við Hafnargötu í Keflavík aðfararnótt sl. laugardags. Brunavarnir Suðurnesja fengu tilkynningu um eldinn frá Neyðarlínunni kl. 03:10. Tilkynnt var um mikinn svartan reyk frá skemmtistaðnum Studio 16.
 
Skemmtistaðurinn var lokaður og hefur verið það í einhvern tíma. Allur tiltækur mannskapur Brunavarna Suðurnesja á vakt fór á staðinn og var strax ljóst að eldur var innanhús og búinn að krauma lengi. 
 
Mikill hiti var innandyra og þurftu reykkafara nokkrar tilraunir til að brjóta sér leið innar í rýmið, segir í færslu á fésbókarsíðu Brunavarna Suðurnesja. Gler var byrjað að springa sökum hita. 
 
Kalla þurfti út slökkviliðsmenn af frívakt og voru mest ellefu slökkviliðsmenn að störfum á tveimur dælubílum og körfubíl. Slökkvistarfi lauk um 06:00 á laugardagsmorgun, tæpum þremur tímum eftir að útkall barst. 
 
Húsnæði skemmtistaðarins er steypt í hólf og gólf og bjargaði það miklu annars hefði eldur borist greiðlega í önnur verslunarými og svo fjölbýlishús sem var sambyggt. Reykræsta þurfti rými við hliðina en það tókst að ráða niðurlögum elds áður en til rýmingar á fjölbýlishúsi hófst. Skemmdir voru töluverðar eftir brunann, segir jafnframt á fésbókarsíðu slökkviliðsins.Tjón er mikið inni á skemmtistaðnum. Myndir af fésbókarsíðu Brunavarna Suðurnesja.