Mikið tjón eftir skemmdarverk
Ófögur sjón blasti við tveimur bíleigendum á Suðurnesjum sem skilið höfðu bíla sína eftir í útskotinu á gatnamótum Grindavíkurvegar og Reykjanesbrautar. Skemmdarfýsnin hefur borið einhvern eða einhverja ofurliði og eru bílarnir tveir illa leiknir eftir aðfarirnar, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.
Ómögulegt er að segja hvað fólki gengur til með slíku athæfi. Við látum sérfræðingum á geðheilbrigðissviði það eftir að finna skýringu á því, en hitt er ljóst að bíleigendurnir hafa orðið fyrir miklu tjóni. Lögreglu var tilkynnt um þetta í morgun og er málið í hennar höndum. Ef einhverjir búa yfir upplýsingum sem kynnu að varpa ljósi á málið, t.d. ef einhver hefur orðið var við grunsamlegar mannaferðir á viðkomandi stað, ætti fólk endilega að hafa samnband við lögregluna á Suðurnesjum.
----
VFmynd/elg – Bílarnir eru mikið skemmdir. Í þessum voru nánast allar rúður brotnar.