Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Mikið púsluspil að koma háspennulínu á koppinn
Föstudagur 18. september 2009 kl. 09:42

Mikið púsluspil að koma háspennulínu á koppinn


Suðvesturlínur fara í gegnum 11 sveitarfélög á suðvesturhluta landsins og þurfa þau öll að breyta skipulagi sínu vegna  línuleiðanna. Þeirra á meðal eru Reykjanesbær, Grindavík, Vogar og Garður. Umfang þessara framkvæmda er mikið og undirbúningsvinnan mikið púsluspil.

Fyrirhuguð lagning línanna er ekki í samræmi við aðalskipulagsáætlanir sex sveitarfélaga. Þeirra á meðal er Grindavík. Þessi sveitarfélög þurfa því að breyta aðalskipulagi sínu áður en hægt er að veita framkvæmdaleyfi. Þá er aðalskipulagið ekki í samræmi við gildandi aðalskipulag Reykjanesbæjar en unnið er að endurskoðun þess. Einnig er unnið að nýju aðalskipulagi fyrir sveitarfélagið Voga og sömuleiðis fyrir Garð þar sem gert verður ráð fyrir línuleiðinni.

Þetta kemur fram í áliti Skipulagsstofnunar vegna Suðvesturlína. Ljóst er að gríðarleg undirbúningsvinna þarf að fara fram áður en hægt er að ráðast í lagninu háspennulínunnar. Til dæmis þarf að sækja um framkvæmdaleyfi hjá eigi færri en 11 sveitarfélögum. Þá þarf að sækja um starfsleyfi hjá heilbrigðiseftirliti í þremur sveitarfélögum þar sem línurnar fara inn á verndarsvæði vatnsbóla og hjá heilbrigðiseftirliti allra umdæma þarf að sækja um starfsleyfi vegna t.d. vinnubúða, efnistökustaða og fleira.  Einnig þarf að sækja um leyf hjá Fornleifavernd og hjá Umhverfisstofnun vegna Reykjaness- og Bláfjallafólkvangs. Ekki síst þarf að sækja um leyfi Orkustofnunar til byggingar háspennulína.

Hún er því dágóð pappírsvinnan sem þessar viðamiklu framkvæmdir kalla á. Og þó er þetta bara hluti af heildarvinnunni.

Þá er ótalinn sá ágreiningur sem sveitarfélög þurfa að leysa sín á milli vegna lögsögumarka. Þannig liggja Suðvesturlínur um svæði þar sem skipulagi hefur verið frestað vegna ágreinings af þessum toga milli Seltjarnarnessbæjar, Kópavogs og Mosfellsbæjar. Þá liggur línuleiðin um svæði þar sem skipulagi  hefur verið frestað vegna óvissu um eignamörk en mun vera sameiginlegt land Álftaness og Garðabæjar, að því er segir í áliti Skipulagsstofnunar.

Allt er þetta þó aðeins hluti af undirbúningnum, eins og áður segir,  í þeim frumskógi regluverka sem framkvæmdaraðilar þurfa að fara í gegnum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024