Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Mikið hagsmunamál fyrir samfélagið
Kristján Jóhannsson, verkefnisstjóri Einn réttur – ekkert svindl. VF-mynd: Hilmar Bragi
Föstudagur 15. apríl 2016 kl. 09:22

Mikið hagsmunamál fyrir samfélagið

„Einn Réttur – Ekkert svindl“

Alþýðusamband Íslands, í samvinnu við aðildarsamtök sín, hefur hrundið af stað verkefni gegn undirboðum á vinnumarkaði og svartri atvinnustarfsemi með yfirskriftinni Einn réttur – ekkert svindl. Á Suðurnesjum hafa Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis, Verslunarmannafélag Suðurnesja, FIT, félag iðn- og tæknigreina, Rafiðnaðarsambandið og Verkalýðs- og sjómannafélag Sandgerðis ákveðið að vinna saman að verkefninu.

Kristján Jóhannsson var fyrir skömmu ráðinn til að stýra átakinu hér syðra og sameina félögin í þessu verkefni. „Verkefninu er ætlað að koma í veg fyrir að fyrirtæki geti skapað sér betri samkeppnisstöðu með því að misnota erlent vinnuafl og einnig ungt fólk sem er nýkomið út á vinnumarkaðinn. Það beinist ekki að erlendu vinnuafli sem hingað er komið í góðri trú,“ segir Kristján í stuttu samtali við VF.
Kristján segir gríðarlegt hagsmunamál fyrir samfélagið allt að greidd séu laun í samræmi við gildandi samninga og að vinnuveitendur greiði einnig lögbundin gjöld, skatta og skyldur af sínu launafólki. „Það er einnig algengt, og hefur tíðkast lengi í ákveðnum greinum, að ráða fólk inn sem verktaka til að komast hjá því að greiða lögbundin og umsamin gjöld. Svo stendur launamaðurinn uppi réttindalaus þegar eitthvað bjátar á“.

Að sögn Kristjáns er það einlægur vilji allra sem koma að þessum málum, bæði hjá verkalýðshreyfingunni, atvinnurekendum og hinu opinbera, að koma þessum málum í gott horf. „Þetta verkefni er unnið í samvinnu við Ríkisskattstjóra, Vinnumálastofnun og Vinnueftirlitið.“ Farið verður í vettvangsferðir í fyrirtæki og ástand mála kannað. Séu mál í góðu lagi þarf ekki að hafa frekari afskipti af þeim fyrirtækjum. Komi hins vegar í ljós brotalamir verða vinnuveitendur krafðir úrbóta.
„Ég hlakka til þessa verkefnis með öllu því góða fólki sem starfar að þessu. Ég er svona að koma mér fyrir á skrifstofu VSFK en við verðum komin á fullt í verkefninu eftir miðjan apríl,“ segir Kristján að lokum.
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024