Mikið bætt aðstaða á Garðsvelli
Öll aðstaða á Garðsvelli, heimavelli Víðis í Garði, hefur verið bætt til muna. Girðing umhverfis íþróttasvæðið hefur verið endurnýjuð, hlaupabraut hefur verið malbikuð og svæðið tyrft. Þá hefur verið malbikað við klúbbhús Víðismanna, bæði bílastæði og við sjoppuna. Næstu framkvæmdir verða að leggja bílastæði við Garðsvöll bundnu slitlagi og frekari lagfæringar á umhverfi.
Víðismenn hafa notið stuðnings frá bæjaryfirvöldum og Knattspyrnusambandi Íslands við framkvæmdirnar. Þeim var þakkað formlega stuðningurinn sl. laugardag. Þá var hlaupa- og göngubrautin formlega opnuð og velunnurum Víðis boðið upp á grillaðar pylsur.
Í hálfleik var Gesti Gestssyni frá Nýlendu í Garði veitt viðurkenning sem stuðningsmaður Víðis sumarið 2013.
Víðismenn tóku á móti Grundarfirði í lokaleik sumarsins og urðu úrslitin jafntefli og fjórða sætið í 3. deildinni staðreynd hjá Víðismönnum.
Magnús Stefánsson, bæjarstjóri í Garði, ávarpaði gesti og sagði frá góðu samstarfi Víðis og bæjaryfirvalda.