Mikið álag á HSS vegna flensueinkenna
– Löng bið á síðdegisvakt og eftir tímum hjá læknum
„Flensan er ennþá á fleygiferð og svona flensulík einkenni. Það er því töluvert álag og örtröð hjá okkur, bæði á síðdegisvakt og einnig heilmikil bið eftir tímum. Svona hefur þetta verið í nokkrar vikur,“ segir Fjölnir Freyr Guðmundsson, framkvæmdastjóri lækninga og sóttvarnalæknir umdæmisins.
Líklega sé helmingur þeirra sem leiti á vakt heilsugæslunnar með flensulík einkenni. Ekki hafi tifellin verið greind sérstaklega en einkennin séu að mestu leyti hár hiti, beinverkir, oft höfuðverkur og þurr hósti. Sumir fái einnig sára hálsbólgu og stundum séu til staðar einkenni frá meltingarfærum.
„Inflúensa er gríðarlega smitandi og því er áríðandi að fólk takmarki eins og unnt er samskipti við annað fólk meðan á veikindum stendur og gæti sérstaklega að handþvotti og öðru hreinlæti. Almennt er ráðlegt að halda sig heima við í að minnsta kosti viku í kringum einkenni, bæði til að ná að jafna sig og til að draga úr útbreiðslu flensunnar.“
Aðspurður segir Fjölnir að sem betur fer sé ekki undirmannað í starfsmannahópi HSS eins og er en alltaf séu einhver tilfelli þess að leggja þurfi sjúklinga inn vegna flensu. Yfirleitt sé fólki ráðlagt að vera heima, bæði til að draga úr álagi á vaktþjónustu HSS og eins til að draga úr útbreiðslu smits áður en leitað er til heilsugæslunnar.