Miðnæturopnun og sushi vekur lukku í Bláa Lóninu
Staðan tekin á ferðaþjónustuaðilum á Suðurnesjunum
Bláa Lónið hefur kynnt nokkrar nýjungar þetta sumarið sem virðast falla vel í kramið á gestum. Nú þurfa ferðamenn sem vilja skoða svæðið í kring en ætla sér ekki ofan í lónið að borga gjald og segir Magnea Guðmundsóttir, kynningarstjóri Bláa Lónsins að það fæli ekki marga frá þar sem erlendir ferðamenn séu vanir slíkum gjöldum. Miðnæturopnun er önnur nýjung sem hefur vakið ánægju meðal gesta en frá 1. júlí til 15. ágúst er opið frá kl. 09:00 til miðnættis.
Hjá Bláa Lóninu starfa 250 starfsmenn á ársgrundvelli og fjölgar þeim í 330 yfir sumarið. Starf gestgjafa er eitthvað sem vekur mikla lukku en hlutverk þeirra, sem flestir eru menntaðir leikarar er m.a. að leiða fræðslu- og upplifunarferðir um svæðið þar gestir fá að kynnnast sögu, starfsemi og jarðfræði Bláa Lónsins undir líflegri leiðsögn.
Að sögn Magneu eru gönguferðir í nágrenni lónsins vinsælar og er nýr göngustígur sem liggur frá Bláa Lóninu til Grindavíkur falleg leið sem hentar vel þeim sem vilja skokka eða ganga og um leið njóta fallegrar náttúru svæðisins. Sérstaklega er vinsælt meðal innlendra gesta að stunda útivist á svæðinu og enda svo daginn á heimsókn í Bláa Lónið. Þegar mest er fer gestafjöldi í allt að 3000 gesti á dag og margir þeirra nýta sér ýmis tilboð sem í boði eru, hvort sem það eru spa meðferðir eða pakka sem innihalda máltíð á veitingastðnum Lava. Þar er m.a. hægt að fá sushi sem búið er til á staðnum daglega og hefur það slegið í gegn.
Mynd: Magnea Guðmundsdóttir, kynningarstjóri Bláa Lónsins