Metumsvif hjá Isavia á Keflavíkurflugvelli
Öll fyrri met í farþegafjölda hafa verið slegin á Keflavíkurflugvelli í sumar. Farþegafjöldi á háannatímanum í júní, júlí og ágúst og stefnir í að verða 1,100 þúsund sem er aukning um 100 þúsund farþega frá fyrra ári. Útlit er fyrir að farþegafjöldi verði á bilinu 2,7 – 2,8 milljónir á árinu í heild samanborið við tæplega 2,4 milljónir í fyrra.
Aukningin var ekki ófyrirséð og var ráðist í talsverðar skipulagsbreytingar og endurbætur á flugstöðinni síðastliðinn vetur til þess að bæta flæði og auka þægindi flugfarþega. Nýtt brottfararhlið var tekið í notkun í norðurbyggingu fyrir farþega sem fluttir eru með rútum til og frá flugvélum á stæðum sem ekki tengjast með landgöngubrúm. Svæðum í suðurbyggingu sem ekki voru hluti af almennu farþegarými var breytt í biðsvæði farþega og snyrtiaðstöðu og verslunarsvæði stækkað og endurbætt. Fríhöfnin opnaði nýja og glæsilega 650 fm. verslun þar sem mikil áhersla er lögð á íslenska hönnun og íslenskar vörur ásamt vörum sem henta vel til gjafa eða minja eftir vonandi ánægjulega heimsókn til landsins. Þessi verslun er með svokölluð „búð í búð“ fyrirkomulagi í samstarfi við aðrar verslanir í flugstöðinni.
Sjálfsinnritunarstöðvum var fjölgað til muna til þess að hraða afgreiðslu við innritun og tekin var upp sjálfvirk farþegaafgreiðsla við tvö brottfararhlið sem dregur úr biðraðamyndun. Þá er einnig verið að ljúka við uppsetningu á nýju þráðlausu netkerfi með fríum aðgangi í flugstöðinni.
Auk endurbóta á flugstöðinni var ráðist í stækkun flughlaðsins við flugstöðina og í haust verður hafin smíði 4 þúsund fermetra þjónustubyggingar sem hýsa mun flugvallarþjónustudeild undir einu þaki í nágrenni flugstöðvarinnar. Áætlað er að bygging hússins hefjist á vetri komanda. Nýja þjónustubyggingin mun skapa mikla hagræðingu í störfum flugvallarþjónustunnar sem sinnir viðhaldi, hreinsun og hálkuvörnum og björgunar- og slökkviþjónustu á flugvellinum. Kostnaður við ofangreindar endurbætur er áætlaður alls um 3,5 miljarður króna en gert er ráð fyrir að á næstu árum þurfi að veita á bilinu 5 – 10 milljörðum króna til stækkunar flugstöðvarinnar og endurbóta á flugbrautum.
Starfsmönnum flugvallarins hefur fjölgað umtalsvert með auknum umsvifum en alls eru nú 356 starfsmenn Isavia á Keflavíkurflugvelli auk rúmlega 100 sumarstarfsmanna en voru 329 um sl. áramót. Þá eru ótaldir 140 starfsmenn dótturfélagsins, Fríhafnarinnar, auk 85 sumarstarfa. Endurskipulagning á aðstöðu og nýtingu mannvirkja og undirbúningur að stækkun flugstöðvarinnar á næstu árum krefst umtalsverðrar undirbúningsvinnu og hafa, m.a. nokkrir sérfræðingar verið ráðnir til þess að sinna slíkum verkefnum. Einnig er ráðgert að fjölga starfsmönnum um 15 í haust.