Mettúrar hjá Hrafni og Hrafni Sveinbjarnarsyni
Að sögn Eiríks Dagbjartssonar, útgerðarstjóra hjá Þorbirni, í samtali við heimasíðu Grindavíkurbæjar, grindavik.is, var góð samsetning á aflanum. Alls voru 80 tonn af þorski, 110 af ýsu, 140 af ufsa, 20 af karfan, 75 af grálúðu og 20 tonn af öðrum tegundum.
„Það er ýmislegt sem hjálpast að þessa dagana. Fiskiríið hefur verið gott, gengið er hagstætt og svo hafa verðin á erlendum mörkuðum, sérstaklega á ufsa, karfa og grálúðu, lagast töluvert frá því í vor,“ segir Eiríkur.
Skipstjórar í þessum fjögurra vikna mettúr hjá Hrafni voru Ævar Ásgeirsson og Bergþór Gunnlaugsson. Lætur nærri að hásetahluturinn í þessum túr hafi verið ein og hálf milljón. Hrafn fer strax í annan túr en fer svo í slipp um mánaðarmótin.
Þá landaði annar frystitogari Þorbjarnar, Hrafn Sveinbjarnarson, í síðustu viku. Það var einnig mettúr, aflaverðmætið var 120 milljónir króna, aflinn var aðallega grálúða. Þriðji frystitogarinn hjá Þorbirni, Gnúpur, er hins vegar í slipp þessa dagana en línufloti fyrirtækisins fer bráðlega af stað.
Myndirnar voru teknar á bryggjunni í morgun þegar var verið að landa úr Hrafni. Á neðri myndinni er hluti af uppskipunargenginu; Raggi, Bensó og Villi.