Metsala hjá GeoSilica
-mikil eftirspurn eftir heilsuvörum úr kísil
Metsala var á kísilsteinefni GeoSilica í júlímánuði en varan kom markað í lok árs 2014 og er nú hægt að nálgast hana á yfir 80 sölustöðum um land allt.
Kísilsteinefnið er í vökvaformi og er það 100% náttúrulegt, þróað og framleitt úr jarðhitavatni frá Hellisheiðarvirkjun.
Að sögn Fidu Abu Libdeh annars stofnanda fyrirtækisins gengur salan vonum framar og salan langt umfram væntingar.
„Við erum mjög ánægð og þakklát og teljum að söluaukninguna megi rekja til þess að komin er reynsla á kísilsteinefnið og viðskiptavinir okkar eru ánægðir með árangurinn. Þeir deila reynslu sinni og fólk hringir í okkur til þess að þakka fyrir vöruna,“ segir Fida.
Fyrirtækið var stofnað árið 2012 af Fidu og Burkna Pálssyni, ásamt Ögnum ehf, út frá lokaverkefnum Fidu og Burkna í orku- og umhverfistæknifræði við Háskóla Íslands. Þau luku bæði námi í Keili á Ásbrú.
Að sögn Fidu er næst á dagskrá að stækka framleiðsluna til þess að geta annað sívaxandi eftirspurn og hefur fyrirtækið nú þegar hafist handa við að þróa nýja vöru til þess að auka vöruúrval fyrirtækisins og uppfylla þörf á markaði eftir heilsuvörum úr kísil.