Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Metnaðarfull uppbygging íþróttamannvirkja í Grindavík
Teikningar af nýrri félagsaðstöðu UMFG.
Föstudagur 1. mars 2013 kl. 13:50

Metnaðarfull uppbygging íþróttamannvirkja í Grindavík

Mikil uppbygging íþróttamannvirkja er framundan í Grindavík. Stefnt er að því að leggja til 7-800 milljónir króna í byggingu íþróttamannvirkja sem myndu binda allar deildir UMFG saman og jafnframt skapa aðstöðu fyrir deildirnar undir sama þaki. Stefnt er að því að ljúka framkvæmdum eftir fjögur ár en hin nýja aðstaða mun gjörbylta starfsumhverfi UMFG. Fyrsti áfangi verður boðinn út innan skamms.

„Við fjármögnum þetta með veltufé úr rekstri sveitarfélagsins. Reksturinn hjá Grindavíkurbæ er kominn á rétt ról og getur skilað fjármunum til fjárfestinga. Við eigum 1400 milljónir í svokölluðum hitaveitusjóð og við munum nýta um 400 milljónir af þeim í þessi verkefni,“ segir Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri Grindavíkur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Rekstur Grindavíkurbæjar hefur gengið mjög vel undanfarin ár. Bæjarfélagið seldi sinn hlut í Hitaveitu Suðurnesja fyrir nokkrum árum og er nánast skuldlaust. Bæjarstjórn hefur sett sér markmið að hitaveitusjóðurinn muni aldrei fara undir milljarð. Fjárhagsstaða Grindavíkurbæjar er líklega ein sú besta á landinu í samanburði við önnur sveitarfélög. Nýlega var Grindavíkurbær á lista yfir best settu sveitarfélög landsins í skýrslu Íslandsbanka. Róbert segir að stefnt sé að miklum framkvæmdum í Grindavík á næstu árum.

Innslag úr sjónvarpsþættinum Suðurnesjamagasín.

„Þetta er mikil innspýting fyrir hagkerfið í Grindavík. Samhliða erum við í smærri framkvæmdum eins og stíga- og gatnagerð sem fylgir rekstri sveitarfélags. Jafnframt erum við að byggja við grunnskólann þar sem nýtt húsnæði bókasafns og tónlistarskólans mun rísa. Það verða margar framkvæmdir í gangi hjá okkur á næstu árum.“

Íþróttalífið fær hjarta sem slær í takt

Ungmennafélag Grindavíkur hafði haft aðsetur í félagsheimilinu Festi um árabil. Nú hefur Grindavíkurbær selt Festi en húsnæðið liggur undir skemmdum og ætla nýir eigendur að gera þetta sögufræga félagsheimili upp. Þörfin á nýju húsnæði fyrir UMFG var því talsverð.

„Þetta er mikil aðstöðubreyting fyrir UMFG og við bindum miklar vonir við þetta nýja hjarta sem verður til þegar allar deilir félagsins verða samankomnar undir sama þaki. Þetta verður eitt hjarta sem mun slá fyrir allar deildir,“ segir Róbert.

Félagsstarfið fær tækifæri á að blómstra

Grindavík er mikill íþróttabær og þrátt fyrir aðeins séu tæplega 3000 íbúar þá hefur bæjarfélagið teflt fram íþróttaliðum í fremstu röð bæði í knattspyrnu og körfuknattleik. Líklega eru það þó minni íþróttir sem munu helst njóta ávinnings af væntanlegri uppbyggingu.

„Þó að íbúafjöldi Grindavíkur sé tæplega 3000 þá eigum við fjölnota íþróttahús og glæsilega knattspyrnuvelli. Minni íþróttir líkt bardagagreinar, fimleikar og fleira hafa kannski setið aðeins á hakanum og við viljum bæta úr því. Einnig hefur verið skortur á félagsaðstöðu fyrir UMFG. Ungmennafélag er ekki bara íþróttafélag heldur einnig félagsskapur fólks sem hefur áhuga á sínu samfélagi. Með þessari nýju aðstöðu skapast tækifæri fyrir félagsstarfið til að blómstra líkt og íþróttirnar.“