Metanknúinn Benz ekur fötluðum og öldruðum í Reykjanesbæ
Ferðaþjónusta Reykjaness/Hópferðir Sævars hefur tekið í notkun nýjan Mercedes-Benz Sprinter fólksflutningabíl. Fyrirtækið sinnir akstursþjónustu fyrir fatlaða og aldraða á öllu Reykjanessvæðinu.
Eigendur fyrirtækisins, þau Sævar Baldursson og Margrét A. Eggertsdóttir segjast afar ánægð með að geta boðið upp á umhverfisvæna akstursþjónustu með hreinu íslensku metaneldsneyti. „Þessi þróun er einnig í anda þeirrar stefnu sem Reykjanesbær hefur sett í vistvænum samgöngum og er sannarlega til fyrirmyndar,“ segir Sævar. Hann er þar að vitna til yfirlýsts markmiðs Reykjanesbæjar að vera í forystuhlutverki í að stuðla að notkun vistvænnar orku í samgöngum. Markmiðið er að innan fimm ára verði öll samgöngutæki sem bærinn nýtir, svo sem almenningsvagnar og þjónustubílar, knúnir vistvænum orkugjöfum.
Margrét bendir á að það sé mun hagkvæmara að vera með metanbíl í akstrinum, bæði er hann mun ódýrari í rekstri sem og vistvænni. Að auki eru metanbílar fluttir inn án vörugjalda. „Það er líka hið besta mál að aka um á hreinu íslensku eldsneyti sem skapar dýrmætar gjaldeyristekjur fyrir þjóðarbúið,“ segir hún.
Þau hafa þegar ákveðið að festa kaup á öðrum metanknúnum Mercedes-Benz Sprinter af Öskju í Reykjanesbæ sem áætlað er að verði afhentur í júní nk.
Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri Öskju, sem er umboðsaðili Mercedes-Benz á Íslandi, segir að metanbílar séu góður kostur fyrir íslensk fyrirtæki. Þau geti sparað sér allt að helming rekstrarkostnaðar auk þess sem umhverfisáhrif séu talsvert minni en af hefðbundnum bifreiðum. „Mercedes-Benz býður upp á breiða línu af metanknúnum atvinnu- og fólksbílum. Við erum m.a. með Sprinter sem fólksflutningabíl, sendibíl og pallbíl sem hægt er að sníða að rekstri hvers og eins. Auk þess bjóðum við upp á metanútfærslu af Mercedes-Benz B-Class í fólksbílaflokki, en hann hefur verið vinsæll hér á landi sem og erlendis. Þá er E-Class einnig væntanlegur hingað í metanútfærslu á næstu vikum. Það er vissulega ánægjulegt að geta verið með svo mikið úrval af metanbílum,“ segir Jón Trausti.
Á myndinni má sjá Kjartan Steinarsson, umboðsmann Öskju á Suðurnesjum, Sævar Baldursson, annan eigenda Hópferða Sævars og Pál H. Halldórsson, sölustjóra atvinnubíla hjá Öskju við afhendingu bifreiðarinnar.