Metaðsókn í flugnám hjá Keili
Metaðsókn er í einkaflugmannsnám hjá Flugakademíu Keilis fyrir vorönn 2013 og ljóst að flugáhugi Íslendinga fer vaxandi, bæði meðal þeirra sem láta staðar numið við einkaflugmannspróf og þeirra sem stefna áfram í atvinnuflugmannsnám.
Kennsla hjá Keili hefur tekið mið af þeim tækninýjungum sem hafa orðið á undanförnum árum, enda hefur miðlun þekkingar breyst og fjölbreytni kennsluaðferða aukist með tilkomu aukins aðgengis að upplýsinga- og tölvutækni. Flugakademía Keilis hefur nýtt tövutækni við fjarnám um nokkurt skeið, til dæmis í upptöku á fyrirlestrum, og fer nú allt bóklegt einkaflugmannsnám fram í fjarnámi. Ekki einungis hefur það gert nemendum auðveldara að sækja námskeiðin, heldur geta þeir horft á fyrirlestur um eitthvert sértækt efni, stoppað, spólað til baka eða tekið sér pásu hvenær sem er.
Auk ásóknar í einkaflugmannsnám, hafa aldrei fleiri nemendur stundað atvinnuflugmannsnám hjá Keili. Einna helst er það mikil aukning meðal erlendra nemenda einkum frá Norðurlöndunum, en Flugakademían hefur kennt erlendum nemendum bæði til einka- og atvinnuflugmanns á undanförnum árum við góða afspurn. Til að anna eftirspurn erlendra nemenda sem stefna á atvinnuflugmannsnám í haust hefur verið ákveðið að bjóða upp á einkaflugmannsnámskeið á ensku sem hefst í apríl.
Samkvæmt Friðrik Ólafssyni, yfirkennara bóklegs flugnáms hjá Keili er flugnám á Íslandi vel á pari við það sem gerist erlendis og hagkvæmara í þokkabót. Flugkennsla á Íslandi þarf ekki einungis að vera fyrir íslenska nemendur enda eru aðstæður til flugnáms hér á landi mjög góðar. Miðað við verðlagningu slíks náms í Evrópu er Ísland kjörinn staður til flugnáms, en auk þess dregur einstök náttúra, krefjandi flugvellir og veðurfar á Íslandi, erlenda nemendur til landsins.