Met aflabrögð í menningu í Grindavík
Tolli, Valgeir Guðjóns, Gospekór Fíladelfíu, Gunni Þórðar, Margrét Eir, Helga Bryndís og Arnþór, Friðarliljurnar og The Backstabbing Beatles, bara til að nefna nokkra af þeim fjölmörgu listamönnum sem koma fram í menningarviku Grindavíkurbæjar 17.-25. mars nk. Tónleikar, leiksýningar, myndlistasýningar, ljósmyndasýningar, fyrirlestrar og skemmtanir verða í fyrirrúmi. Tónlistarskólinn, bókasafnið, grunnskólinn, Kvikan, kaffihúsin og fleiri aðilar leggja allir sitt af mörkum til eflingar menningar í Grindavík. Hér er um met aflabrögð að ræða.
Menningarvika Grindavíkur er nú haldin í fjórða sinn og hefur aldrei verið fjölbreyttari og veglegri. Formleg setning hátíðarinnar verður í Grindavíkurkirkju laugardaginn 17. mars þar sem verða ýmis tónlistaratriði og jafnframt verða afhent menningarverðlaun 2012. Menningarvikunni hefur verið vel tekið undanfarin þrjú ár.
Allir leggjast á eitt við að bjóða upp á fjölbreytta og skemmtilega dagskrá. Ýmisir viðburðir verða alla dagana á Kvikunni, bókasafninu, Bryggjunni, Salthúsinu, Aðalbraut, Kantinum, Miðgarði, sundlauginni, Grindavíkurkirkju, leikskólunum, Northern Light Inn, grunnskólunum, á vegum tónlistarskólans, listastofum, verslunarmiðstöðinni, Sjómannastofunni Vör, Kantinum, hjá handverksfélaginu Greip og fleiri stöðum.
Svo gripið sé af handahófi í dagskrána má sjá einnig dagskrárliði eins og Hugsum fyrst og skjótum svo með Gissuri Sigurðssyni fréttamanni. Bæjarfulltrúar mæta í heitu pottana, Margrét og Ársæll verða með Blóðberg á Bryggjunni, söng- og vísnakvöld verður á vegum bókasafnsins, grunnskólinn frumsýnir árshátíðarleikrit sitt, sérstakt Guðbergskvöld verður til heiðurs Guðbergi Bergssyni rithöfundi og heiðursborgara Grindavíkur, Möguleikhúsið sýnir Prumpuhólinn, svo eitthvað sé nefnt.
Grindvíkingar, Suðurnesjamenn og reyndar landsmenn allir eru hvattir til þess að nýta sér tækifærið og fjölmenna á menningarviðburðina í Grindavík.
Dagskrána í heild sinni má lesa á www.grindavik.is/menningarhatid. Hún er skipulögð af Kristini J. Reimarssyni sviðsstjóra frístunda- og menningarmála.