Mestu gróðureldar síðustu ára
Slökkvilið Grindavíkur hefur verið á fullu síðan í gær að slökkva gróðurelda sem hafa komið í kjölfar eldgossins en bæði er mikil mengun sem stafar af þeim og sömuleiðis er það náttúruverndarsjónarmið að slökkva þá. Önnur slökkvilið hafa komið til aðstoðar og stór beltagrafa er notuð til að grafa rás svo gróðureldurinn komist ekki lengra.
Einar Sveinn Jónsson er slökkviliðsstjóri Grindavíkur. „Staðsetning þessa eldgoss er önnur en hinna, það er miklu meiri gróður þarna í kring og þar sem mikil þurrkatíð hefur verið og hvasst, hafa eldar sprottið þarna upp og það verðum við að reyna stöðva. Þessir gróðureldar eru komnir einhverja fimm kílómetra frá gosinu og nokkuð ljóst að ef við stöðvum þetta ekki, mun eldurinn ná niður á Suðurstrandarveg, á Reykjanesveginn eða út á Grindavíkurveg. Sem betur fer er vindáttin hagstæð núna og reykurinn blæs út á haf en ef hún snýst mun mengun fara yfir byggðir og það viljum við alls ekki, þetta er meinóhollt.
Þetta eru mjög krefjandi aðstæður, við erum með þykkan mosa, 25m vind og eldgos við hliðina á okkur. Við erum með stórvirkar vinnuvélar til að rjúfa mosann og svo höfum við fengið aðstoð frá Brunavörnum Árnessýslu, Hjálparsveit skáta, Brunavörnum Suðurnesja og slökkviliði höfuðborgarinnar. Þyrla Landhelgisgæslunanr hefur komið að þessu en í heildina erum við um 25 manns sem komum að þessu. Björgunarsveitin Þorbjörn flytur mannskapinn til og frá staðnum.
Við erum að vinna í brunaröndinni sjálfri, erum að reyna stoppa hana áður en hún fer í skarð sem liggur þar sem gönguleiðin er. Við byrjuðum í gær og vorum fram á nótt, byrjuðum svo aftur snemma í morgun og ég á von á því að verðum fram á kvöld, ég vona að við sjáum góðan árangur eftir daginn,“ sagði Einar.