Mesti afli sem íslenskur línubátur hefur komið með í land í einum túr
Sagan endalausa, sem ég hef minnst oft á í þessum pistlum mínum um þessar gríðarlegu tafir sem hafa orðið á endurgerð Suðurgarðsins í Sandgerðishöfn, er nú loks kannski farið að sjá fyrir enda á. Núna er búið að steypa polla niður, setja niður neyðarstiga og fríholt utan á norðanverðan Suðurgarðinn. Það hefur þýtt að stóru bátarnir, sem hafa verið að landa meðal annars á Norðurgarðinum, hafa geta lagst við nýja hlutann og bundið bátinn sinn þar.
Einn af þeim bátum sem hefur t.d. legið við nýja hlutann er Grímsnes GK. Grímsnes GK er búið að vera að landa í Sandgerði núna það sem af er febrúar ásamt hinum bátunum frá Hólmgrími. Veiðar bátanna hafa verið mjög góðar á netum og t.d. hefur Erling KE landað 124 tonnum í aðeins sjö róðrum. Erling KE er þegar þetta er skrifað aflahæsti netabáturinn á landinu það sem af er febrúar.
Grímsnes GK er með 72 tonn í sjö róðrum. Maron GK 44 tonn í sjö, Bergvík GK 24 tonn í sex og Halldór Afi GK 24 tonn í sjö, allir að landa í Sandgerði. Í Grindavík er eini netabáturinn sem landar þar, Hraunsvík GK, með 13,4 tonn í fjórum róðrum.
Það var aðeins minnst á það í síðasta pistli að Stakkavík hafi sent línubát sinn, Óla á Stað GK, norður til Siglufjarðar til þess að komast í smærri fisk en er hérna fyrir sunnan. Óli á Stað GK er ekki einn þar því Stakkavík hefur einnig sent Guðbjörgu GK norður til Siglufjarðar. Guðbjörg GK hefur landað 45 tonnum í fimm róðrum og mest 19 tonn. Óli á Stað GK 35 tonn í sjö róðrum.
Dragnótabátarnir hafa fiskað ágætlega. Benni Sæm GK er, þegar þetta er skrifað, aflahæsti dragnótabáturinn á landinu með 43,2 tonn í sex róðrum, en er ekki nema 150 kílóum á undan Rifsara SH frá Rifi. Siggi Bjarna GK með 35 tonn í fimm róðrum. Sigurfari GK 25 tonn í þremur og Aðalbjörg RE 15 tonn í í þremur.
Þeim fjölgar hægt handfærabátunum en þó voru nokkrir á sjó núna snemma í vikunni og voru þá að veiðum skammt utan við Reykjanesvita og Sandvík. Fiskines KE er búinn að vera lengst að veiðum núna í ár á færunum og hefur núna landað 2,4 tonnum í tveimur róðrum í febrúar.
Stóru línubátarnir hafa fiskað núna í byrjun febrúar og voru margir á veiðum skammt undan suðurströndinni. Má nefna að Hrafn GK er með 144 tonn í tveimur róðrum. Páll Jónsson GK 115 tonn í tveimur, Sturla GK 111 tonn í tveimur, Jóhanna Gísladóttir GK með 105 tonn í einum, Kristín GK 94 tonn í einum og Valdimar GK með 92 tonn í einum róðri.
Þá er það nýjasti línubáturinn í eigu Vísis hf, Sighvatur GK. Sighvatur GK endaði janúarmánuð ansi vel þegar að báturinn kom með 143 tonn í land í einni löndun. Þetta er stærsta löndun bátsins frá því að hann kom til landsins eftir endurbyggingu.
Skipstjórinn á Sighvati GK, Ólafur Óskarsson, er vanur því að koma í land með fullan línubát af fiski, því hann hefur meðal annars verið skipstjóri á Jóhönnu Gísladóttir GK þegar þeir komu í land með um 156 tonna afla. Jóhanna Gísladóttir GK, ásamt Sturlu GK, eru þeir línubátar sem eru gerðir út hérna við landið sem eru með stærsta lestarplássið.
Báðir bátarnir, Sturla GK og Jóhanna Gísladóttir GK, hafa komist yfir 150 tonn í löndun og núna hefur Sighvatur GK bæst í þennan hóp með ansi miklum látum, því að Sighvatur GK kom til hafnar í Grindavík með fullfermi og vel það. Landað var úr bátnum 165 tonnum og af því var þorskur 115 tonn. Þessi afli er mesti afli sem að íslenskur línubátur hefur komið með í land í einni löndun og því er þetta Íslandsmet í afla línubáts í einni löndun. Það má geta þess að þessi afli fékkst eftir um sjö daga túr.