Mesta virknin nú bundin við nágrenni Keilis og Trölladyngju
Hrinan á Reykjanesskaga stendur enn yfir og er mesta virknin nú bundin við nágrenni Keilis og Trölladyngju. Aðeins dró úr virkninni í gærkveldi en upp úr kl. 22 jókst hún aftur.
Á miðnætti mældist skjálfti M3.6 að stærð 1,3 km NA af Trölladyngju.
Rétt um klukkan 3 í nótt mældust svo tveir skjálftar yfir stærð 4. Sá fyrri var kl 02:53 1.3 km SV af Keili og var 4.3 að stærð. Sá seinni var í Fagradalsfjalli, kl 03:05, 4.6 að stærð. Þeirra varð beggja vel vart á Suðvesturhorninu og þess seinni alveg austur á Hellu og í Vestmannaeyjum, segir í samantekt á vef Veðurstofu Íslands.