Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Mesta tekjuaukning Isavia frá stofnun
Föstudagur 24. mars 2017 kl. 09:43

Mesta tekjuaukning Isavia frá stofnun

Tekjur Isavia á síðasta ári námu 33 milljörðum sem er aukning um 27 prósent á milli ára. Þetta er mesta tekjuaukning frá stofnun félagsins og má að mestu leyti rekja hana til fjölgunar farþega á Keflavíkurflugvelli, að því er kemur fram í tilkynningu frá Isavia.

Ársreikningur Isavia var samþykktur á aðalfundi í gær. Heildarafkoma nam 6,9 milljörðum króna að meðtöldum gengishagnaði upp á 2,8 milljarða króna sem er til kominn vegna styrkingar íslensku krónunnar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Farþegum um Keflavíkurflugvöll fjölgaði um 40 prósent á síðasta ári, flugvélum sem fóru um íslenska flugstjórnunarsvæðið fjölgaði um 13,5 prósent og innanlandsfarþegum um 8 prósent. Að sögn Óla Björns Haukssonar, forstjóra Isavia, var síðasta ár frábært rekstrarár og ánægjulegur vöxtur á öllum sviðum fyrirtækisins. „Rekstur Keflavíkurflugvallar er auðvitað mest áberandi, en þaðan koma mestu tekjurnar og hafa þær verið nýttar í nauðsynlega uppbyggingu flugvallarins. Hins vegar var einnig gríðarleg aukning í flugumferð um íslenska flugstjórnarsvæðið og höfum við brugðist við henni með bættum búnaði, stækkun húsnæðis og fjölgun starfsfólks.“ Björn segir liggja fyrir að ráðast þurfi í miklar fjárfestingar á Keflavíkruflugvelli á næstu árum til að mæta áframhaldandi fjölgun farþega. Eiginfjárstaða sé sterk og félagið því vel í stakk búið til að takast á við þær. Á móti komi að þessar fjárfestingar muni kalla á aukið aðhald í rekstri á meðan þær standa yfir.