Mesta fjörið í svefnherbergjum Vogabúa!
Þó íbúafjölgunin á Suðurnesjum hafi verið mest í Reykjanesbæ á síðustu árum hafa íbúar Voga vinninginn hvað frjósemi varðar. Þar eru lifandi fæddir hlutfallslega flestir á síðustu árum. Fast á hæla Vogamanna í barneignum koma Sandgerðingar.
Á vef Hagstofunnar er hægt að sjá tölur yfir lifandi fædda einstaklinga eftir sveitarfélögum allt aftur til ársins 1991. Ef við skoðum hins vegar fyrstu sjö árin á nýrri öld kemur í ljós að árið 2000 voru 9 einstaklingar lifandi fæddir í Vogum. Á síðasta ári voru þeir hins vegar 31 þannig að aukningin er meira en þreföld á þessum árafjölda. Það virðist því vera meira fjör í svefnherbergjum Vogabúa en annarra Suðurnesjamanna!
Næstir á eftir koma Sandgerðingar, íbúar Reykjanesbæjar og Garðbúar þar á eftir en Grindvíkingar eru eitthvað rólegri í tíðinni í þessum efnum, eins og sjá má á meðfylgjandi töflu úr gögnum Hagstofunnar.
"Vogar eru náttúrulega mjög fjölskylduvænt sveitarfélag sem gerir það að verkum að fólk vill eignast börn sem alast upp í góðu samfélagi.
Þar fyrir utan eru Vogabúar upp til hópa heilbrigt, lífsglatt og skemmtilegt fólk sem kann að skemmta sér, en það er að sjálfsögðu skemmtileg iðja að geta börn," sagði Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri Voga, þegar VF innti hann eftir skýringum á málinu.