Mesta atvinnuleysi á Suðurnesjum í 30 ár
Atvinnleysi á Suðurnesjum hefur aldrei verið meira frá 1980 eða frá því reglulegar mælingar hófust. Í mars síðastliðnum mældist 14,9% atvinnuleysi á svæðinu. Á síðastliðnum 30 árum mældist mesta atvinnuleysið árið 1994 eða 4,9%. Það þýðir að 344 einstaklingar hafi þá verið atvinnulausir að jafnaði.
Atvinnuleysið jókst gríðarlega eftir Hrun og stenst engan samburð við mesta atvinnleysið um miðjan 10. áratuginn. Á síðasta ári mældist það 12,8% og voru að jafnaði 1,433 einstaklingar þá atvinnulausir.
Þetta kemur fram í tölum Hagstofunnar um vinnumarkaðinn. Í þeim kemur fram að á árinu 2009 voru 180.900 á vinnumarkaði á landinu öllu. Af þeim voru 167.800 starfandi en 13.100 án vinnu og í atvinnuleit. Atvinnuþátttaka mældist 80,9%, hlutfall starfandi 75,1% og atvinnuleysi var 7,2%. Á árunum 1991 til 2009 hélst atvinnuþátttaka nokkuð stöðug á bilinu 80,7% til 83,6%. Síðan reglulegar mælingar Hagstofunnar hófust árið 1991 hefur hlutfall starfandi aldrei mælst minna og atvinnuleysi meira en árið 2009. Mest atvinnuleysi fram að því var á árunum 1992 til 1995 eða á bilinu 4,3% til 5,3%.
Á árunum 1991 til 2009 var atvinnuþátttaka og hlutfall starfandi mest meðal þeirra sem hafa lokið háskólamenntun en minnst meðal þeirra sem hafa aðeins lokið grunnmenntun. Atvinnuleysi er minnst hjá þeim sem hafa lokið háskólamenntun en mest meðal þeirra sem hafa aðeins lokið grunnmenntun. Meiri sveiflur eru hvað varðar atvinnuþátttöku, hlutfall starfandi og atvinnuleysi hjá aldurshópnum 16–24 ára en öðrum aldurshópum á tímabilinu.