Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Mest virkni í syðsta gígnum og nýtt hættumatskort kynnt í dag
Kristín Jónsdóttir, deildarstjóri hjá Veðurstofu Íslands. Skjáskot úr streymi Almannavarna.
Miðvikudagur 20. desember 2023 kl. 14:56

Mest virkni í syðsta gígnum og nýtt hættumatskort kynnt í dag

Mest eldvirkni er í gígnum sem er beint austur af Sýlingarfelli og er syðsti gígurinn af þeim þremur sem var virkur í gær. Hraun rennur í austur frá þeim gíg. Þetta kom fram í máli Kristínar Jónsdóttir, deildarstjóra hjá Veðurstofu Íslands, á upplýsingafundi Almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra í dag. Einnig hefur hrauntunga runnið í vestur fyrir norðan Stóra-Skógfell frá nyrðri gíg. Lítil breyting er á hraunjaðrinum sem er lengst til suðurs.

Mikið hefur dregið úr krafti gossins en kraftur þess í dag er þó til samræmis við þau gos sem orðið hafa í Fagradalsfjalli með framleiðni upp á tíu til fimmtán rúmmetra á sekúndu. Verulega hefur dregið úr jarðskjálftavirkni. Síðasta sólarhringinn hafa áttatíu smáskjálftar orðið yfir kvikuganginum. Stærsti skjálftinn frá miðnætti er 1,2 að stærð.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Gervitunglamyndir sem teknar voru í gær sýna að hraunið sem runnið hefur frá eldgosinu sem hófst í fyrrakvöld er orðið 3,7 ferkílómetrar að stærð. Til samanburðar varð hraunið í gosinu í Geldingadölum 2021 fimm ferkílómetrar að stærð.

Ekki er gert ráð fyrir umtalsverðri gasmengun frá eldgosinu norðan Grindavíkur. Toppar hafa þó mælst á Reykjanesskaganum en vindar munu blása mengun á haf út í kvöld og á morgun en mengun getur borist yfir höfuðborgarsvæðið í dag.

Nýtt hættumatskort verður gefið út síðar í dag. Nýja hættumatið tekur gildi á morgun að öllu óbreyttu.

Þetta kort birti Veðurstofan í dag og sýnir virku gígana og umfang hraunsins sem hefur runnið.