Mest lesið 2012: Togari fórst í Noregshafi - Sjómenn frá Suðurnesjum taldir af
Frá því var greint á vf.is í lok janúar síðastliðnum að togarinn Hallgrímur SI-77 hafi farist í Noregshafi um 150 sjómílur norðvestur af Álasundi í Noregi. Tveir Suðurnesjamenn voru meðal þeirra þriggja sem létust í þessu hörmulega slysi en einum manni var bjargað. Frétt um slysið var sú næstmest lesna á vefsíðu Víkurfrétta árið 2012.
Verið var að flytja togarann Hallgrím SI til Noregs þegar slysið átti sér stað þar sem hann átti að fara í brotajárn. Hann var síðast gerður út frá Siglufirði. Togarinn var um tíma gerður út frá Grindavík. Þá hét hann Þuríður Halldórsdóttir GK og síðar Sturla GK en það var Þorbjörn hf. sem gerði skipið út.
Systurskip Hallgríms SI fórst fyrir tveimur áratugum útaf Vestfjörðum. Það var einnig gert út frá Suðurnesjum um tíma og hét þá Haförn GK og Gautur GK.