Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Merkingum stórlega ábótavant
Mánudagur 3. apríl 2006 kl. 14:51

Merkingum stórlega ábótavant

Umferðarmerkingum er stórlega ábótavant á framkvæmdasvæðum við tvöföldun Reykjanesbrautar. Um helgina valt bifreið ofan í skurð skammt frá Grindavíkurafleggjara með þeim afleiðingum að flytja þurfti farþegana á Landspítala Háskólasjúkrahús. Djúpir skurðir eru við Reykjanesbrautina þar sem tvöföldunarframkvæmdir fara fram en Jóhann Bergmann, deildarstjóri nýframkvæmda á suðvestursvæði Vegagerðarinnar, segir áherslu lagða á það að menn fylli í skurðina jafn óðum.

Ökumenn sem halda frá Reykjanesbæ inn á Reykjanesbrautina sjá hvergi skilti sem segir til um að framkvæmdir standi yfir á Reykjanesbraut.
Fyrsta skiltið, sé ekið frá Reykjanesbæ, segir „Beltin bjarga“ og er alls óskylt framkvæmdum við einn umferðarþyngsta veg landsins. Aðspurður hvort úrbóta væri ekki þörf við þá staði á Reykjanesbraut sem framkvæmdir fara fram sagði Jóhann Bergmann að ekki væru sett skilyrði um vegrið í slíkum framkvæmdum. Fyrirskrifað væri að notast ætti við steinavegrið við gatnamótin sjálf þar sem framkvæmdirnar eru hvað dýpstar, þ.e. við gatnamót Reykjanesbrautar og Grindavíkurvegar og við gatnamót Reykjanesbrautar og Vogaafleggjara.

„Í landinu öllu eru til 700 eða 800 steinavegrið og er hver steinn um 2 metrar á lengd sem gerir tæpa 2 km í heildarlengd en yfirstandandi framkvæmdir á Reykjanesbraut eru um 12 km langar,“ sagði Jóhann Bergmann í samtali við Víkurfréttir. Til er önnur lausn á málinu og hún felur í sér að setja upp vegrið þar sem meterinn kostar 4000 kr. og því myndi einn kílómeter fara á 4 milljónir króna. „Á þessum 12 km kafla þarf ekki alls staðar að grafa djúpt því sums staðar standa klappirnar upp úr,“ sagði Jóhann.

Frá Fitjum í Reykjanesbæ að gatnamótum Vogaafleggjara og Reykjanesbrautar er aðeins eitt skilti sem segir frá framkvæmdum við brautina. „VARÚÐ! Vinnusvæði 500m“ en það gefur til kynna að vinnusvæðið sé 11,5 km styttra en raun ber vitni. Jóhann Bergmann sagði einnig í samtali sínu við Víkurfréttir að það væri verktakans, Jarðvélar ehf., að sjá um að vinnusvæðiskafli Reykjanesbrautar sé merktur því fólk væri fljótt að gleyma skiltum sem það ekur fram hjá og þyrfti að vita af því þegar það væri að keyra um hættusvæði. Jóhann sagði ennfremur að kostnaðurinn í kringum greinagóðar merkingar á framkvæmdasvæðum væri hverfandi.

Ljóst er að mikill kostnaður mun hljótast af því að setja upp vegrið sama hvort þau verði steinvegrið eða af annarri gerð en úrbóta við framkvæmdasvæðið á Reykjanesbraut er þörf þar sem merkingum á svæðinu er stórlega ábótavant.

VF-myndir/JBÓ
[email protected]


 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024