Merki um landris á Reykjanesskaga
Merki um landris er farið að sjást á Reykjanesskaga eftir að eldgosinu við Litla Hrút lauk í byrjun ágúst. Sérfræðingar á Veðurstofunni segja að þeim sýnist á GPS-mælum að landrisið sé á svipuðum slóðum og fyrir síðasta gos í sumar. Þó er aflögun ennþá of litil til að hún sjáist á gervitunglamyndum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.
„Líklegast erum við að horfa á þessa langtímaviðvörun sem við höfum áður haft. Land hefur tekið að rísa um leið og fyrri tveimur gosum lauk en eitthvað hægara en vísbendingar benda til nú,“ segir í tilkynningunni.
Síðasta gos hófst við Litla-Hrút 10. júlí síðastliðinn og síðast sást virkni í gígnum 5. ágúst og var goslokum lýst yfir tíu dögum síðar. Nú bendir til að um leið og gosinu lauk voru komin merki um áframhaldandi þenslu.
Viðvarandi skjálftavirkni hefur verið á vestanverðum Reykjanesskaganum og afmarkast virknin helst við vestasta hluta Reykjaness, Svartsengi, Fagradalsfjall og Kleifarvatn. Stærsti jarðskjálfti frá goslokum var M3,8 þann 9. september 2,5 km vestan við Kleifarvatn.
Í siðustu viku fóru sérfræðingar frá Veðurstofunni að mæla gas og hitastig í jarðhitasvæði í Trölladyngju (austan við Keili) en engin merki um óvenjulega virkni hefur mælst þar.
Talið er að eldgosin á Reykjanesskaga séu upphaf elda og hafa vísindamenn líkt þeim við Kröfluelda 1975-84 en þá rann hraun ofanjarðar níu sinnum á tímabilinu með tilheyrandi landrisi, -sigi og jarðskjálftum.