Menntaskólinn á Ásbrú og Solid Clouds undirrita samstarfssamning
Samstarf Menntaskólans á Ásbrú við Solid Clouds veitir nemendum einstaka innsýn í hönnun fjölspilunar herkænskuleikja.
Nanna Kristjana Traustadóttir, skólameistari MÁ, og Stefán Þór Björnsson, fjármálastjóri Solid Clouds, undirrituðu samstarfssamning þann 18. júní síðastliðinn. Í honum felst að Solid Clouds munu útvega allt að fimm nemendum við Menntaskólann aðstöðu og tölvubúnað sem hluta af verklegri kennslu þeirra og á þann hátt auka fjölbreytileika og styðja við gæði þess náms sem fer fram í MÁ.
Solid Clouds vinnur að gerð fjölspilunar herkænskuleiksins Starborne þar sem leikmenn ýmist keppast um eða vinna saman að uppbyggingu stórvelda í geimnum. Þungamiðja leikjahönnunarinnar felst í fallega hönnuðu korti, byggðu á byltingarkenndri tækni, sem dregur fram valmöguleika leikmanna og veitir þeim sérstaka sýn á hvað hægt er að áorka innan leiksins.
Um samstarfið segir Stefán Þór „Solid Clouds er metnaðarfullt tölvuleikjafyrirtæki sem vill leggja sitt af mörkum til að styðja við framgang íslensk tölvuleikjaiðnaðar. Menntaskólinn á Ásbrú hefur unnið einstakt starf varðandi það að þjálfa upp næstu kynslóð íslenskra leikjasmiða og er mikilvægt að stjórnvöld haldi áfram að styðja við það góða starf sem fer fram inn veggja skólans.“
Við Menntaskólann á Ásbrú er rík áhersla lögð á afeinangrun kennslustofunnar og kraftur settur í að setja upp áhugavekjandi, raunhæf verkefni fyrir nemendur á öllum stigum námsferils þeirra. Undanfarna vorönn gerðu nemendur við skólann tölvuleiki fyrir barnahorn Keflavíkurflugvallar í samstarfsverkefni við Isavia og næstkomandi vetur mun sami nemendahópur vinna verkefni með íslensku tölvuleikjaframleiðendunum CCP og Myrkur Games.
„Áhugahvöt í námi skiptir gríðarlega miklu máli og í MÁ vitum við að áhugann eflum við m.a. með því að tengja námið við raunveruleg verkefni í atvinnulífinu. Við höfum fengið verulega góð viðbrögð fyrirtækja í hugverkaiðnaði gagnvart samstarfi og erum með mörg járn í eldinum hvað það varðar. Að fyrirtæki sé tilbúið til þess að verja tíma í samstarf við okkar nemendur er einnig til vitnis um það að bransinn styður við þá vegferð að tryggja námsvettvang fyrir íslensk ungmenni með sérhæfingu í tölvuleikjagerð. Þetta er mjög fjarri því að vera eitthvað flipp, hér erum við að tala um raunverulega færni til framtíðar og mikilvægi þess í okkar samfélagi meira en margan grunar.“ segir Nanna Kristjana.
Samningurinn tekur gildi frá og með næstu mánaðamótum og munu nemendur því njóta góðs af samstarfsverkefninu strax í sumar. En fyrsti nemandinn hóf starfsnám hjá Solid Clouds nú við upphaf sumars.