Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Menntaskólinn á Ásbrú  opnar stafrænt  leikjaherbergi
Fimmtudagur 12. nóvember 2020 kl. 15:31

Menntaskólinn á Ásbrú opnar stafrænt leikjaherbergi

Menntaskólinn á Ásbrú, í samstarfi við nemendur á stúdentsbraut í tölvuleikjagerð, hefur nú opnað stafrænt leikjaherbergi á vefsíðu sinni. Á hverjum föstudegi mun nýr leikur bætast í safnið á meðan framboð leyfir.

Á hverri önn búa nemendur til leik í áfanganum tölvuleikjagerð. Þar fá þeir grunn hjá kennurum sem þeir svo byggja ofan á en til þess notast þeir við forritið Unity. Hönnun, saga og framvinda leiks er með öllu í höndum nemenda. Leikirnir eru allir birtir með leyfi höfunda og eru gestkomandi beðnir að koma fram við hugverk þeirra af virðingu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Óvíst er hvenær verður næst hægt að bjóða gestum og gangandi á opið hús í raunheimum þar sem þeir geta skoðað húsnæði skólans, rætt við nemendur og skoðað verk þeirra. Með stafrænu leikjaherbergi Menntaskólans á Ásbrú veitum við áhugasömum því tækifæri til þess að fá smjörþef af þeim verkefnum sem nemendur vinna að þó þau skorðist vissulega ekki aðeins við gerð þessara leikja. Í gegnum tíðina hafa nemendur hannað leiki fyrir barnahorn Isavia, unnið verkefni í samstarfi við einyrkja á sviði tölvuleikjagerðar og fleiri spennandi samstarfsverkefni eru í pípunum fyrir næstu misseri,“ segir í frétt frá Keili.

Fyrstu leikirnir eru þegar komnir á síðuna en eru þeir tvíhleypan Goblin Goblin og Goblin Goblin 2. Þar þurfa leikmenn m.a. að berjast í gegnum hóp rauðhærðra ribbalda, komast í gegnum eitraða mýri og hrynjandi helli til þess að bjarga svartálfsfélaga sínum.

Leikjaherbergið má finna á vef Menntaskólans á Ásbrú
www.menntaskolinn.is