Menntamálaráðaherra mun funda um framtíð Fisktækniskólans
Rætt var um framtíð Fisktækniskólans í Grindavík á Alþingi í dag. Páll Valur Björnsson, þingmaður Bjartrar framtíðar og fyrrum kennari við skólann, spurði Illuga Gunnarsson, menntamálaráðherra um framtíð skólans á Aþingi í dag. Páll Valur sagði skólann nú þegar hafa sannað gildi sitt. Samningur væri nú útrunninn og hann benti á að samsvarandi skólar á Norðurlöndunum væru styrktir myndarlega. Rúv.is greinir frá þessu.
„Þá er þetta gríðarlega mikilvægur skóli og ekki síst í ljósi þess að þetta er ein mikilvægasta atvinnugrein okkar Íslendinga og líka í ljósi þess að við erum með tvo landbúnaðarháskóla, það er í raun alveg ótrúlegt að þessi skóli hafi ekki verið löngu kominn á laggirnar því það hefur átt sér stað mikil nýsköpun og þróun í sjávarútvegi," sagði Páll Valur Björnsson. Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra sagðist taka undir mikilvægi skólans en benti á að ekki hafi verið tekið á málinu síðastliðinn vetur, í tíð fyrri ríkisstjórnar.
Illugi sagði: „Ég mun að sjálfsögðu setjast yfir þetta mál, ég hef sagt það og farið yfir það hérna og ég tek algjörlega undir það sem sagt hefur verið varðandi mikilvægi þessa skóla og mikilvægi þessa náms, auðvitað er það námið sjálft sem skiptir mestu máli, og ég ítreka það að ég mun setjast yfir þetta með mínum embættismönnum og ég mun líka kalla til mín forystumenn skólans til að ræða við þá um þetta hvernig best verður að þessu staðið."