Menningarverðmæti í hættu?
Eru þetta menningarverðmæti í hættu eða bara gamall braggi að grotna niður á Keflavíkurflugvelli? Þessa byggingu er að finna á verktakasvæði Keflavíkurflugvallar en bragginn er frá fyrstu árum Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli.
Eftir að hliðin að gömlu herstöðinni voru opnuð almenningi og Vallarheiði, eins og svæðið er kallað í dag, var tekin í borgaraleg not hafa fylgifiskar eins og skemmdarverk orðið áberandi.
Á nokkrum stöðum á heiðinni má sjá að búið er að negla plötur fyrir glugga. Þá hefur þessi gamli braggi orðið fyrir árásum skemmdarvarga. Það má vel vera að engin menningarverðmæti liggi í þessari byggingu en hugsanlega á hún hlutverk sem hluti af safni um sögu Varnarliðsins. Þarna þarf því að gera bygginguna mannhelda, því þó svo útlitið sé ekki gott utandyra, þá eru innréttingar í gömlum stíl og anda þeirra ára sem ekki koma aftur.
Þessari ábendingu er hér með komið áleiðis til þeirra er málið varðar.
Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson