Menningarráð fær auðkennismerki
Menningarráð Suðurnesja efndi til samkeppni um auðkennismerki (logo) og liggur niðurstaðan nú fyrir. Talsverður áhugi var fyrir verkefninu og voru innsend umslög 23 talsins en í heildina voru tillögurnar um það bil 80.
Fyrir valinu varð tillaga Ingunnar Þráinsdóttur „Korriró“. Lýsing höfundar að hugmyndinni á bakið við merki er eftirfarandi: Merkið er stílfærð útfærsla á skammstöfuninni MS. Útfærslan er lifandi og orkufull og táknar því líflega og fjölbreytta starfsemi menningarráðsins. Einnig er teikningin í merkinu tilvísun í öldufriss og jarðhita og þann kraft sem býr í náttúru svæðisins.
Höfundurinn Ingunn Þráinsdóttir er lærður grafískur hönnuður frá NSCAD University í Halifax í Kanada en er nú búsett á Egilsstöðum. Hún starfar í Héraðsprenti en rekur einnig sitt eigið hönnunarfyrirtæki Flóra-icelandic design, www.iflora.is þar sem hún hannar og selur sínar eigin vörur bæði úr pappír og textíl.
Ingunn hefur fengist við ýmis fjölbreytt verkefni síðastliðin ár tengd hönnun og listum, hún hefur haldið þó nokkrar einka- og samsýningar bæði hérlendis sem erlendis og stýrði um tíma Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs.
Hún er formaður SAM-félagsins, grasrótarsamtaka Þorpsins - skapandi samfélags á Austurlandi (www.make.is) og er virkur þátttakandi í lista- og hönnunarlífi á Austurlandi.
Menningarráð Suðurnesja þakkar öllum þeim sem tóku þátt í samkeppninni fyrir þann áhuga sem sýndur var með þátttökunni í verkefninu.