Menningarmiðstöð Reykjanesbæjar með bókasafni, tónlistarskóla og fjölbreyttu viðburðahaldi
Bókun meirihluta og Umbótar í bæjarstjórn Reykjanesbæjar
Málefni bókasafnsins, staðsetning þess og stækkun til framtíðar hafa verið til umræðu í nokkurn tíma. Innan stjórnsýslunnar hófst málið formlega í nóvember 2022 þar sem allir fulltrúar bæjarráðs samþykktu að skoða hvort að mögulegt væri að flytja bókasafn Reykjanesbæjar í Hljómahöll. Málið hefur verið rýnt af starfsfólki sveitarfélagsins, af hönnuði og arkitekt auk bæjarfulltrúa.
Í upphafi var lagt til þrjá valmöguleika verkefnisins; að hafa bókasafnið á núverandi stað, að byggja nýtt 2.000 m² húsnæði fyrir bókasafnið eða flytja bókasafnið í Hljómahöll.
Bókasafnið deilir húsnæði með ráðhúsi Reykjanesbæjar að Tjarnargötu 12. Það er þó alveg ljóst að það fyrirkomulag hefur runnið sitt skeið þar sem þröngt er um bæði bókasafnið og starfsemi ráðhússins. Að mati meirihluta bæjarstjórnar auk flokks Umbótar kemur sá valmöguleiki að vera á sama stað því ekki til greina.
Að byggja nýtt 2.000 m² hús fyrir bókasafn er aðlaðandi hugmynd en kallar á rúmlega tveggja milljarða fjárfestingu auk tveggja, þriggja ára ferli við hönnun og byggingu. Þessar fjárhæðir eru ekki innan fjárhagsáætlunar bæjarins og einnig ljóst að vegna þess þrönga kosts sem bókasafnið býr við á Tjarnargötu 12 þarf málið að leysast fyrr. Að mati meirihluta bæjarstjórnar auk flokks Umbótar kemur sá valmöguleiki að byggja nýtt hús því ekki til greina.
Möguleikinn sem þykir bestur út frá þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu er að flytja bókasafnið í Hljómahöll og hefur meirihluti bæjarstjórnar auk flokks Umbótar því tekið þá ákvörðun. Í árslok 2024 munu þessar breytingar ganga í gegn sem hefjast á tímabundinni lokun bókasafnsins á Tjarnargötu 12 meðan flutningur milli húsanna fer fram.
Það er afstaða meirihlutans að fjölmörg tækifæri liggja í umræddum flutningum:
- Bókasafnið fer í stærra húsnæði og stækkunin verður rúmlega tvöföld.
- Bókasafnið verður staðsett milli gömlu sveitarfélaganna tveggja, stutt frá miðbæjarkjarnanum í Krossmóa.
- Rútustæði eru stutt frá og því hentugt að nýta almenningssamgöngur.
- Talsvert er af bílastæðum á lóðinni.
- Bókasafnið hefur meiri möguleika á að þróast sem menningar- og samfélagsmiðja bæjarins í takt við markmið þeirra í framtíðarsýn safnsins.
- Möguleiki er á uppbyggingu á svæðinu, til að mynda að setja útileiktæki á lóðina, byggja við Hljómahöll og jafnvel að setja samgöngumiðstöð þar í stað Krossmóa.
Gera má ráð fyrir því að Rokksafnið muni taka breytingum en ýmsir möguleikar eru varðandi framtíð safnsins þó það verði ekki af þeirri stærðargráðu sem það er í dag. Mikilvægt er að stjórnendur þeirra stofnana sem nú verða undir einu þaki vinni áfram í málinu með sviðsstjórum og verkefnastjóra sem ráðinn verður í tímabundið starf í framhaldi af þessari ákvörðun. Starfsemi í Stapa og Bergi verður óbreytt, þ.e. rýmin verða nýtt fyrir skemmtanir og fjölbreytt viðburðahald en auk þess er hægt að nýta umrædd rými fyrir menningarlega starfsemi bókasafnsins þegar salirnir eru ekki í útleigu. Rými tónlistarskólans mun einnig taka einhverjum breytingum og verður samnýtt að einhverju leyti með bókasafninu. Fyrirkomulag á nýtingu hússins í heild verður ákveðið í samvinnu stjórnenda stofnananna með verkefnastjóra.
Í framtíðarsýn bókasafnsins til 2030 kemur fram að bókasafn Reykjanesbæjar er „menningar- og samfélagsmiðja bæjarins“ en með flutningi bókasafnsins í Hljómahöll er hugsunin sú að til framtíðar verði húsnæðið áfram rekið sem menningarmiðstöð Reykjanesbæjar með bókasafni, tónlistarskóla og fjölbreyttu viðburðahaldi fyrir íbúa og gesti Reykjanesbæjar.
Ítrekað er að með flutningunum verður hvergi nærri hætt með viðburðarhald í Stapa og í Bergi og hvatt er til fleiri viðburða og skemmtana fyrir íbúa og gesti.
Tónlistarskólinn mun halda áfram sínu faglega og metnaðarfulla starfi og bókasafnið mun stækka og eflast í starfsemi sinni í hag íbúa Reykjanesbæjar í frábæra menningarhúsinu okkar.
Samfylkingin, Framsókn, Bein leið og Umbót Reykjanesbæ.