Menningarkort fyrir íbúa og ferðmannakort fyrir ferðafólk
Tómas Young, framkvæmdastjóri Hljómahallar, kynnti menningar- og ferðamannakort Reykjanesbæjar á fundi menningar- og þjónusturáðs Reykjanesbæjar 22. febrúar síðastliðinn.
Menningarkortið er stafrænt árskort fyrir íbúa sem og gesti sem heimsækja menningarhús Reykjanesbæjar reglulega. Árskortið kostar 2.000 kr. og veitir aðgang að Rokksafni Íslands og Duus safnahúsum en þar eru til húsa sýningarsalir Listasafns Reykjanesbæjar, Byggðasafns Reykjanesbæjar og Gestastofa Reykjaness jarðvangs. Kortunum fylgir 10% afsláttur í safnbúð Duus safnahúsa og 10% afsláttur af tónlist og fatnaði í verslun Rokksafns Íslands auk þess sem gestum er boðinn ókeypis kaffibolli á báðum stöðum. Hugmyndin með ferðamannakortinu er að selja ferðafólki í sveitarfélaginu eitt kort sem veitir aðgang að öllum helstu þjónustum sveitarfélagsins. Fyrirhugað er að innifalið í kortinu verði aðgangur að Duus safnahúsum, Rokksafni Íslands, sundlaugum og strætókerfi Reykjanesbæjar. Kortið kemur til með að gilda í 48 tíma frá því að það er keypt. Áætlað er að kortið veiti ýmis önnur fríðindi, s.s. afslætti í safnaverslunum, á veitingastöðum og í verslunum.
Menningar- og þjónusturáð tekur jákvætt í erindið.