Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Föstudagur 23. nóvember 2001 kl. 09:10

„Menn eru að leita leiða til að lifa þetta af“, segir Logi Úlfarsson

Samdráttur í verslun í flugstöðinni:

Umferð um íslenska flugstjórnarsvæðið dróst saman um 30% í október miðað við sama mánuð í fyrra og farþegum um Flugstöð Leifs Eiríkssonar hefur fækkað umtalsvert síðustu mánuði. Þessi samdráttur hefur komið harkalega niður á rekstri verslana í flugstöðinni en menn leita nú leiða til að lifa þessa erfiðleika af.
Að sögn Flugumferðarstjórnar má rekja samdráttinn að miklu eða öllu leyti til hryðjuverkaárása á Bandaríkin í september síðastliðnum. Samkvæmt tölum frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar um fjölda farþega hefur þeim fækkað um 82.000 á síðastliðnum fimm mánuðum miðað við sömu mánuði í fyrra en hlutfallslega er fækkunin langmest í haust. Mesta fækkunin er á farþegum sem millilenda á landinu á leið yfir Atlantshafið.
Guðrún Skúladóttir verslunarstjóri Saga Boutique sagðist finna greinilega fyrir minni sölu, þó hún gæti ekki nefnt neinar tölu í því sambandi. „Hingað kemur færra fólk til að versla, m.a. vegna Schengen þar sem vegalengdir eru orðnar lengri innan flugstöðvarinnar og fólk hefur yfirleitt stuttan tíma.“
Logi Úlfarsson, framkvæmdastjóri Íslensks markaðar segir að vandinn sé í raun þríþættur. Í fyrsta lagi tilkoma Suðurbyggingarinnar sem gerði það að verkum að fólk hefur minni tíma til að versla og transit farþegar bíða nú orðið yfirleitt í hliðunum. Hryðjuverkaárásirnar 11. september höfðu gríðarleg áhrif og Flugleiðir drógu í kjölfarið úr sætaframboði til Ameríku og að einhverju leyti til Evrópu. „Farþegum hafði fækkað um 25 þúsund frá því í júní áður en árásirnar á NY voru gerðar, þannig að við máttum illa við enn frekari fækkun. Menn eru að leita leiða til að lifa þetta af og ég hef trú á að það takist. Við höfum fengið ágætis undirtekir frá þeim sem hafa með þessi mál að gera en síðan verður að koma í ljós hverju það skilar“, sagði Logi en ekki er enn komið í ljós hvort leiga á verslunarhúsnæði í flugstöðinni verði lækkuð eins og rekstraraðilar hafa farið fram á.
Að sögn Loga er misjafnt milli verslana hversu mikið salan hefur dregist saman en hjá Íslenskum markaði er samdrátturinn um 25% frá september til nóvember. Logi segist þó hafa hært hærri prósentutölur nefndar í öðrum verslunum.
„Reksturinn hér hefur ekki verið neinn dans á rósum síðan 1998 og við vorum því illa í stakk búin til að taka á okkur þennan samdrátt. En við erum full bjartsýni, annars væri maður ekki að standa í þessu.“
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024