Meistara- og doktorsnemar skoða gagnaver á Ásbrú
Nemendur í meistaranámi og doktorsnámi á sviði verkfræði og/eða tölvunarfræði við Háskóla Íslands heimsóttu framkvæmdasvæði Verne Global á Ásbrú í Reykjanesbæ í gærdag til að kynna sér uppbyggingu rafræns gagnavers.
Tate Cantrell, framkvæmdastjóri tækni- og þróunarsviðs Verne Global, fór yfir fyrirhugaða uppbyggingu á Ásbrú og fyrir hvað Verne Global stendur. Hann kynnti meistaranáms- og doktorsnemum hugmyndafræði gagnaversins og hvers vegna Ísland varð fyrir valinu og sérstaklega staðsetningin í fyrrum herstöð Varnarliðsins við Keflavíkurflugvöll.
Eftir að hafa hlustað á fyrirlestur Tate fóru nemendurnir í skoðunarferð um byggingasvæðið á Ásbrú þar sem meðal annars er unnið að því að breyta 23.000 fermetra vöruskemmum í risastóra tölvusali, auk þess sem nýbyggingar sem hýsa meðal annars raforkuver og spennistöðvar eru að rísa.
Það kom fram á kynningunni að fullbyggt mun gagnaverið á Ásbrú þurfa 150 megavött af raforku og til að tryggja 100% raforkuöryggi gagnaversins verða settar upp díselvélar sem framleiða munu þetta rafmagn ef bilun kemur upp í aðveitukerfi gagnaversins.
Fyrsti áfangi gagnavers Verne Global mun þurfa 20 megavött af rafmagni og í fyrsta áfanganum verða settar upp 20 díselvélar sem hver um sig framleiðir um 1,5 megavatt. Þá er ótalinn mjög flókinn rafbúnaður fyrir gagnaverið og risavaxinn tölvubúnaður sem verður tengdur sæstrengjum bæði vestur um haf og til Evrópu.
Ekki var annað að sjá en nemarnir væru áhugasamir um gagnaverið, enda menntun þeirra eitthvað sem nýtist bæði Verne Global og þeim fyrirtækjum sem Verne Global mun hýsa tölvugögn fyrir.
Meðfylgjandi myndir tók Hilmar Bragi Bárðarson í heimsókn nemanna til Verne Global í gærdag.