Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Meirihlutinn kolfallinn
Könnun Fréttablaðsins í morgun.
Miðvikudagur 14. maí 2014 kl. 08:48

Meirihlutinn kolfallinn

– samkvæmt könnun Fréttablaðsins

Meirihluti Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ er kolfallinn samkvæmt nýrri skoðanakönnun sem Fréttablaðið birtir í morgun. Flokkurinn fær 30,8 prósent atkvæða og fjóra bæjarfulltrúa, en fékk 52,8 prósent í kosningunum árið 2010 og sjö bæjarfulltrúa. Þrjú framboð sem bjóða fram í fyrsta skipti í sveitarstjórnarkosningunum á Reykjanesi fá samtals 38,8 prósent atkvæða og fjóra bæjarfulltrúa af ellefu, samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar.
 
Samfylkingin tapar einnig talsverðu fylgi frá síðustu kosningum en 19,6% ætla að kjósa flokkinn núna. Það skilar Samfylkingunni tveimur bæjarfulltrúum en fyrir fjórum árum fékk flokkurinn 28,4% atkvæða og þrjá bæjarfulltrúa. Þetta gerir um þriðjungi minna fylgi.
 
Fylgi Framsóknarflokksins minnkar einnig um þriðjung. Flokkurinn fer úr 14% fylgi í 9,3% í könnunni sem birt er í morgun. Flokkurinn heldur sínum eina bæjarfulltrúa.
 
Frjálst afl, sem er klofningsframboð úr Sjálfstæðisflokknum er stærst nýrra framboða í Reykjanesbæ, samkvæmt könnuninni. Frjálst afl fær 18,6% atkvæða og tvo bæjarfulltrúa.
 
Píratar fá 10,4% atkvæða samkvæmt könnuninni og einn mann kjörinn. Bein leið fær 9,8% atkvæða og einn bæjarfulltrúa.
 
Könnun Fréttablaðsins í morgun er öðruvísi en könnun Morgunblaðsins. Frjálst afl bætir við sig einum bæjarfulltrúa á milli kannana og Píratar missa einn fulltrúa frá könnun Morgunblaðsins.
 
Eini möguleikinn á tveggja flokka stjórn í Reykjanesbæ yrði samstarf Sjálfstæðisflokksins og Frjáls afls. Ef mynda á meirihluta án Sjálfstæðisflokks þarf fjóra flokka til að mynda nýjan meirihluta í Reykjanesbæ, samkvæmt niðurstöðu könnunar Fréttablaðsins.
 
Aðferðafræðin
 
Hringt var í 1.126 manns þar til náðist í 800 manns samkvæmt lagskiptu úrtaki mánudaginn 12. maí. Svarhlutfallið var 71 prósent. Þátttakendur voru valdir með slembiúrtaki úr Þjóðskrá. Svarendur skiptust jafnt eftir kyni og hlutfallslega eftir aldri. 
 
Spurt var: Hvaða lista myndir þú kjósa ef gengið yrði til sveitarstjórnarkosninga í dag? Ef ekki fékkst svar var spurt: Hvaða flokk er líklegast að þú myndir kjósa? Ef ekki fékkst svar var spurt: Er líklegra að þú myndir kjósa Sjálfstæðisflokkinn, eða einhvern annan flokk? Alls tóku 66,6 prósent þeirra sem náðist í afstöðu til spurningarinnar. 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024