Meirihlutinn í Sandgerði mótfallinn sameiningu
Meirihlutinn í bæjarstjórn Sandgerðisbæjar lýsir sig andsnúinn sameiningu við önnur sveitarfélög á Suðurnesjum og vísar þar í skýrslu vinnuhóps sem bæjarstjórn setti saman til að meta kosti og galla sameiningar. Fulltrúar minnihlutans telja að bæjarbúar eigi að fá að taka ákvörðun um málið í kosningum sem eru ráðgerðar í maímánuði.
Í vinnuhópnum voru tveir fulltrúar úr meirihlutanum, Reynir Sveinsson og Ingþór Karlsson, og tveir frá minnihlutanum, Ólafur Þór Ólafsson og Heiðar Ásgeirsson.
Skýrslan varpar ljósi á þá staðreynd að Sandgerðisbær stendur styrkum fótum fjárhagslega þar sem tekjur á hvern íbúa eru meiri þar en í öðrum sveitarfélögum á svæðinu auk þess sem eignarstaða og skuldastaða er sterk. Þá er óttast að þjónustugjöld hækki það verulega fyrir bæjarbúa að hagræðingin sem hlýst af stærra sveitarfélagi hverfi.
Er einnig velt upp þeirri spurningu hvort minni sveitarfélög séu í betri aðstöðu til að laga framboð þjónustu að óskum íbúanna og komið til móts við þeirra raunverulegu þarfir. Þau hafi meiri sveigjanleika og geta forgangsraðað verkefnum sínum eftir þörfum.
Telja fulltrúar meirihlutans í niðurstöðu sinni um skýrsluna að Sandgerðisbær hafi burði til að takast á við núverandi og væntanleg verkefni þar sem tekjur bæjarfélagsins eru hærri en annarra sveitarfélaga á svæðinu og góð framlegð frá aðalsjóði næstu árin. Þá gangi niðurgreiðsla skulda vel, en hins vegar er sett spurningarmerki við fjármál Reykjanesbæjar og vísað í hallarekstur sem verið hefur á sveitarfélaginu undanfarin ár.