Meirihlutinn fallinn í Reykjanesbæ
- samkvæmt nýrri könnun Félagsvísindastofnunar fyrir Morgunblaðið.
Meirihluti Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Reykjanesbæjar er fallinn samkvæmt nýrri könnun Félagsvísindastofnunar fyrir Morgunblaðið. Þetta kemur fram á mbl.is.
Flokkurinn tapar miklu fylgi, fær 37,1% atkvæða og fjóra bæjarfulltrúa, en fékk 52,8% atkvæða í kosningunum árið 2010 og sjö menn kjörna í ellefu manna bæjarstjórn.
„Ég tek þessum tölum mjög alvarlega. Þetta er mæling á stöðunni eins og hún er í dag og ekki ástæða til að gera lítið úr því,“ sagði Árni Sigfússon bæjarstjóri í samtali við mbl.is. „Það er mikilvægt að fá mælingu svona í upphafi kosningabaráttunnar. Það auðveldar mönnum að átta sig á því hvar þeir geta tekið á.“
Aðrir flokkar í bæjarstjórn tapa einnig fylgi, að því er fram kemur í fréttaskýringu um skoðanamælinguna í Morgunblaðinu í dag.