Meirihlutinn er fallinn í Vogum
Meirihlutinn í Vogum á Vatnsleysuströnd féll á bæjarstjórnarfundi í kvöld. Inga Sigrún Atladóttir forseti bæjarstjórnar treystir sér ekki lengur til þess að leiða meirihlutann. Frá þessu er greint á DV.is.
„Barátta mín fyrir óháðum upplýsingum um fyrirhugaðar framkvæmdir hafa ekki verið mér auðveldar. Fyrr á þessu ári óskaði ég eftir tímabundnu leyfi frá starfsskyldum forseta bæjarstjórnar en í viðræðum við félaga mína á fundi í gærkvöldi kom fram að ég hefði ekki traust allra fulltrúa meirihlutans til að taka við starfinu aftur vegna framgöngu minnar gagnvart Landsneti. Vegna þessa trúnaðarbrests tel ég mig ekki lengur geta stutt meirihlutasamstarf H og L lista,“ segir Inga Sigrún í bókun um málið.
Framkvæmdirnar sem nefndar voru er fyrirhuguð lagning suðvesturlínu Landsnets í gegnum sveitarfélagið. Inga Sigrún segist hafa gengið hart fram í að fá óháðar upplýsingar um kostnað þessa verkefnis. Hún segir bæjarstjórnina ekki hafa fengið þau.
„Mikilvægt er að bæjarfulltrúar fái aðgang að þeim gögnum svo möguleiki sé fyrir sveitarfélagið að fá óháðan aðila til að meta gögnin og sannreyna hvort kostnaðarhlutföll milli jarðstrengs og loftlínu er eins mikill og Landsnet hefur haldið fram,“ segir Inga Sigrún.
Hún segir að lagning loftlínu stangist á við aðalskipulag sveitarfélagsins. Þá segir hún að mikilvægt sé að kanna hvort loftlínur séu raunverulega ódýrari líkt og Landsnet segir. „Ég hef fylgt þessu máli í nokkur tíma fyrir hönd sveitarfélagsins og miðað við þau gögn sem ég hef aflað mér fer Landsnet ekki með rétt mál í sínum kostnaðartölum,“ segir Inga Sigrún enn fremur.