Meirihluti bæjarráðs Grindavíkur styður álagningu veggjalda
Bæjarráð Grindavíkur telur brýnt að leitað verði leiða til að stórauka fjárveitingar til samgönguframkvæmda með umferðaröryggi að leiðarljósi. Jafnframt styður bæjarráð álagningu veggjalda svo flýta megi tilteknum framkvæmdum á sviði samgöngumála. Þetta kemur fram í tillögu að ályktun sem fulltrúar B- og D-lista lögðu fram á fundi bæjarráðs Grindavíkur í síðustu viku og samþykkt með tveimur atkvæðum framangreindra flokka en fulltrúi U-lista sat hjá.
Fulltrúar M-, S- og U-lista bókuðu við sama tækifæri:
Fulltrúar S - M og U-lista taka heilshugar undir þann hluta ályktunar meirihluta bæjarráðs þar sem segir: „Bæjarráð Grindavíkur telur brýnt að leitað verði leiða til að stórauka fjárveitingar til samgönguframkvæmda með umferðaröryggi að leiðarljósi“.
Hvað varðar seinnihluta ályktunarinnar þá vilja fulltrúar S - M og U-lista bóka eftirfarandi.
Á meðan landsmenn kalla eftir endurbótum á vegakerfinu eykur ríkið stöðugt skattlagningu á bíleigendur sem notuð er í annað. Samt er talað um að ekki séu til peningar til viðhalds og uppbyggingar samgöngumannvirkja sem eru þó einhverjar arðbærustu framkvæmdir sem hægt er að ráðast í. Samkvæmt heimildum og sundurliðuðum tölum frá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB um tekjur ríkissjóðs af umferðinni á árunum 2014 til 2018 kemur fram að heildartekjur ríkissjóðs af ökutækjum verði um eða yfir 330 milljarðar króna að árinu 2018 meðtöldu.
Á þessum árum 2014 - 2018 var samkvæmt reikningum og áætlunum ríkisins veitt til viðhalds vega og nýframkvæmda rúmum 73 milljörðum kr. sem er nánast sama tala og áætlaðar tekjur ríkissjóðs af ökutækjum bara á árinu 2018.
Með öðrum orðum þá eru tæpir 258 milljarðar króna sem innheimtir eru af eigendum ökutækja á þessum árum ekki notaðir til viðhalds og uppbyggingar innviða í samgöngukerfinu, heldur í eitthvað annað.
Fulltrúar S - M og U-lista vilja ennfremur leggja til að ályktun bæjarráðs Grindavíkur hljóði þannig:
Bæjarráð Grindavíkur telur brýnt að leitað verði leiða til að stórauka fjárveitingar til samgönguframkvæmda með umferðaröryggi að leiðarljósi. Leggur bæjarráð til að markaðar tekjur ríkisins af ökutækjum verði allar lagðar til uppbyggingar og endurbóta á vegakerfi landsins og skattlagning/gjaldtaka verði í samræmi við þörfina á gjaldheimtu. Ennfremur verði leitað nýrra leiða til þess að fjármagna viðhald og löggæslu á vegum landsins eins og t.d. með komugjöldum á ferðamenn en með mikilli fjölgun þeirra á síðustu árum hefur álag á samgöngumannvirki og alla grunnþjónustu aukist til mikilla muna. Veggjöld eru enn ein skattlagning á ökumenn sem nú þegar borga á milli 70 - 80 milljarða á ári í skatta af ökutækjum sínum og hafnar bæjarráð hugmyndum um veggjöld ef ekki koma jafnframt til lækkanir annarra álaga á bifreiðaeigendur.
Ályktun B- og D- lista er samþykkt með 2 atkvæðum. Fulltrúi U- lista situr hjá.