Meirihlutaslit í bæjarstjórn Voga í kjölfar línumálsins
Meirihluti bæjarstjórnar Voga á Vatnsleysuströnd er fallinn í kjölfar tillögu sem samþykkt var á fundi í vikunni um hafna línulögn í gegnum land Voga. Fulltrúar E-listans greiddu tillögunni ekki atkvæði og tilkynntu samstarfsflokknum, H-listanum í gærkvöldi, að ekki væri áhugi á frekara samstarfi.
Hörður Harðarson, formaður bæjarráðs Voga segir að hann hafi bent á við afgreiðslu málsins á bæjarstjórnarfundi í vikunnni að svona ákvörðun gæti haft gríðarleg áhrif á Voga og Suðurnesin öll. „Ég spurði félaga mína hvort þeir hreinlega vissu hvað þeir væru að gera með þessari ákvörðun. Ég hef rætt við tvo af þeim sem samþykktu tillöguna eftir þetta og þeir hafa viðurkennt það fyrir mér að þeir hafi ekki gert sér fulla grein fyrir afleiðingunum með þessari samþykkt“.
Í Vogum eru H og E-listi með 3 menn hvor í bæjarstjórn og L-listi með einn. Fulltrúi L-lista, Kristinn Björgvinsson samþykkti tillögu H-listans, sem forseti bæjarstjórnar, Inga Sigrún Atladóttir, lagði fram á fundinum og tryggði þannig að hún næði fram.
„Vinnan í kringum þetta mál er mjög sérstök svo ekki sé meira sagt og við í E-listanum lýstu algeru vantrausti á þessa ákvörðun og segjum okkur því frá meirihlutasamstarfi við H-listann,“ sagði Hörður í samtali við Víkurfréttir.
Samkvæmt samningi bæjarfélagsins við Landsnet frá árinu 2008 átti línulögninni að vera lokið árið 2010 en sveitarfélagið hafði þó alltaf látið þá skoðun sína í ljós að það vildi fá jarðstreng eða sæstreng.
Forseti bæjarstjórnar Voga sagði í viðtali við ruv.is í gær að ákvörðun sveitarstjórnar um Suðvesturlínu Landsnets sé endanleg - línan skuli lögð í jörð í landi Voga. Landsnet segir að samningur um loftlínu sé enn í gildi.
Sveitarfélagið Vogar hafi gert samkomulag við Landsnet árið 2008 um Suðvesturlínu - sem þá átti að leggja ofanjarðar. Íbúar voru ekki á eitt sáttir. Síðan breyttust valdahlutföllin í bæjarstjórn, eftir kosningar í fyrra.
„Síðan kemur nýr meirihluti sem vill hlusta aðeins betur á þessar raddir og sjá hvort Landsnet vilji ekki fara með okkur í þá vegferð,“ segir Inga Sigrún Atladóttir, forseti bæjarstjórnar í Vogum við Rúv í gær.
Mynd/sveitarstjórnarmál: Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga, ásamt bæjarstjóra. Efri röð f.v.:Inga Sigrún Atladóttir, forseti bæjarstjórnar; Oddur Ragnar Þórðarson; Hörður Harðarson, formaður bæjarráðs; Bergur Álfþórsson og Sveindís Skúladóttir. Neðri röð f.v.: Kristinn Björgvinsson; Eirný Valsdóttir bæjarstjóri og Erla Lúðvíksdóttir.