Meiri virkni mælist við kvikuganginn
Veðurstofa Íslands er að mæla meiri virkni við kvikuganginn við Grindavík. Meiri virkni getur verið að koma fram á mælum stofnunarinnar undanfarna sólarhringa vegna rólegra veðurs. Ekki er útilokað að virknin taki sig upp að nýju eða að kvika nái yfirborði án mikillar skjálftavirkni, segir í athugasemd jarðvísindamanns á Veðurstofu Íslands á vedur.is.
Þensla heldur áfram undir Svartsengi og líkanreikningar byggðir á GPS gögnum frá 3.-6. mars sýndu að um 1,2 milljón rúmmetrar af kviku hafa bæst við í kvikuhólfið þessa daga.
Á fimmtudag í síðustu viku höfðu í heildina rúmlega 10 milljón rúmmetrar af kviku safnast í kvikuhólfið. Miðað við að um hálf milljón rúmmetra bætist í kvikuhólfið á sólarhring má áætla að í dag, mánudag, séu um 12 milljónir rúmmetra af kviku í hólfinu undir Svartsengi.
Greint hefur verið frá því í tilkynningum Veðurstofu Íslands að kvikuhlaup hafi orðið þegar magn kviku var átta til þrettán milljónir rúmmetra.
Líkanreikningar sýna að kvikugangurinn sem myndaðist 2. mars var um 3 km langur og náði frá Stóra-Skógfelli að Hagafelli.
Kvikan í ganginum liggur á 1,2 km dýpi þar sem hún er grynnst og nær niður á um 3,9 km dýpi. Samkvæmt líkanreikningunum hlupu um 1,3 milljón rúmmetrar af kviku yfir í Sundhnúksgígaröðina í kvikuhlaupinu 2. mars. Það er mun minna magn kviku en í fyrri atburðum.
Að öllu jöfnu leitar kvikan að auðveldustu leið til yfirborðs og erfitt að fullyrða hvað kom í veg fyrir það í þetta sinn. Um gæti verið að ræða einhverja fyrirstöðu í farvegi kvikunnar, ekki nægt magn eða þrýsting til að opna gossprungu og jafnvel samspil þessara þátta.
Kvikuhlaupið 2. mars hegðaði sér sumpartinn á annan hátt en fyrri kvikuhlaup og er ástæða til að rannsaka það frekar til að auka enn frekar á skilning á eðli kvikuhlaupa á svæðinu og til að átta sig á hvert framhald atburðanna verður.
Þegar horft er til sögunnar í öðrum eldgosahrinum er ekki óalgengt að kvikuhlaup endi án þess að til eldgoss komi. Á tíu ára tímabili í tengslum við Kröfluelda 1975 – 1984 urðu þar tuttugu kvikuhlaup og enduðu níu þeirra með eldgosi. Kvikuhlaupin frá Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina eru orðin fimm talsins frá því í nóvember 2023 og þrjú þeirra hafa endað með eldgosi. Ekkert er þó hægt að fullyrða á þessu stigi að atburðarásin á Reykjanesskaga komi til með að haga sér eins og umbrotin í Kröflu hvað þetta varðar.