Meiri útsvarstekjur endurspegla aukinn kraft í atvinnulífinu
Rekstur bæjarsjóðs Suðurnesjabæjar nánast samkvæmt fjárhagsáætlun
Bæjarstjórn Suðurnesjabæjar telur rekstrarafkomu ársins 2023 viðunandi miðað við aðstæður og þakkar starfsfólki Suðurnesjabæjar fyrir þeirra framlag í rekstri og starfsemi sveitarfélagsins. „Ársreikningur Suðurnesjabæjar 2023 ber með sér að efnahagur sveitarfélagsins er traustur, sem skapar forsendur fyrir áframhaldandi uppbyggingu innviða og þjónustu við íbúa næstu misseri og ár,“ segir í afgreiðslu bæjarstjórnarinnar við síðari umræðu um ársreikning Suðurnesjabæjar 2023.
Rekstrartekjur í samanteknum rekstrarreikningi fyrir A- og B-hluta námu 6.324 milljónum króna en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir að rekstrartekjur væru 5.873 milljónir. Rekstrartekjur A-hluta bæjarsjóðs voru 5.983 milljónir en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir að rekstrartekjur væru 5.580 milljónir króna. Rekstrarniðurstaða í samanteknum rekstrarreikningi fyrir A- og B-hluta er neikvæð að fjárhæð 39 milljónir króna en í fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir að niðurstaðan væri jákvæð 29 milljónir. Rekstrarafkoma A-hluta bæjarsjóðs er neikvæð að fjárhæð 12 milljónir en samkvæmt fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir að niðurstaðan væri jákvæð að fjárhæð 43 milljónir króna. Eigið fé í árslok nam 4.348 milljónum króna, þar af nam eigið fé A-hluta 4.776 milljónum.
Rekstur málaflokka í A-hluta bæjarsjóðs var nánast samkvæmt fjárhagsáætlun ársins. Helstu neikvæðu frávik í rekstri í samanteknum rekstrarreikningi A- og B-hluta miðað við fjárhags-áætlun felast annars vegar í hækkun lífeyrisskuldbindinga og afskrifta og hins vegar í rekstri eignasjóðs og B-hluta stofnana. Helstu frávik til aukinna tekna frá því sem gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun koma helst fram í meiri útsvarstekjum en áætlað var og endurspeglar það m.a. aukinn kraft í atvinnulífinu, auk þess sem fjölgun útsvarsgreiðenda skilaði auknum tekjum. Þá voru framlög frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga hærri en áætlun gerði ráð fyrir.
Íbúafjöldi í Suðurnesjabæ 1. desember 2023 samkvæmt lögheimilisskráningu hjá Þjóðskrá var 4.036 og fjölgaði íbúum frá fyrra ári um 126, eða um 3,2%.