Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Meiri fjöldi nauðungaruppboða en áður
Mánudagur 8. september 2008 kl. 17:32

Meiri fjöldi nauðungaruppboða en áður

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Nauðungaruppboð á hátt í 130 eignum voru auglýstar af Sýslumanninum í Keflavík í síðasta tölublaði Víkurfrétta. Vakti þessi mikli fjöldi óneitanlega athygli enda hefur annar eins fjöldi auglýsinga af þessum toga ekki sést í langan tíma. Að hluta til má rekja ástæðu þessa til ríkjandi efnahagsástands, að sögn Ásgeirs Eiríkssonar, sýslumannsfulltrúa. En þetta á sér líka aðrar skýringar.

Ásgeir segir þennan fjölda nauðungaruppboða í meira lagi.  Hins vegar hafi ekki verið byrjun nauðungaruppboðs síðan í júní þannig að talsvert hafi safnast upp á þann dag sem auglýstur var í síðustu viku. Hann segir starfsfólk embættisins vissulega verða vart við aukningu.

„Byrjun uppboðs á þessum degi þýðir að ákveðið verður hvort eignirnar verða seldar innan fjögurra vikna. Ef fólki tekst ekki á fá þessu frestað er auðvitað voðinn vís innan þess tíma. Langflestum tekst þó að bjarga sér út úr þessu,“ segir Ásgeir.  Til samanburðar má nefna að á síðasta ári komu 547 ný nauðungarsölumál til kasta embættisins en 31 mál fór alla leið og endaðu með sölu. Þar af voru þrjú skip.

Það sem af er þessu ári hefur 61 eign verið seld á nauðungaruppboði hjá embættinu, þar af eitt skip . Ásgeir segir aukningu mála að miklu leyti tilkoma vegna nauðungarsölu 35 íbúða í Innri – Njarðvík, sem voru í eigu eins og sama verktaka. Alls hafa 478 ný mál af þessum toga komið inn á borð embættisins á þessu ári.

Árið 2006 komu 394 mál til meðferðar embættisins en þrettán þeirra lauk með sölu.