Meiri áhersla á stíga og malbikun í Grindavík
Farið yfir forgangsröðun framkvæmdaverkefna hjá Grindavíkurbæ á síðasta fundi bæjarráðs Grindavíkur. Ljóst er að framkvæmdir við íþróttamannvirki og uppbyggingu fyrir tónlistarskóla og bókasafn munu fara hægar af stað en áætlanir gerðu ráð fyrir. Bæjarráð samþykkir því að leggja meiri áherslu á stíga og malbikun á þessu ári.
Þá var tekið fyrir mál um göngustíg í Selskóg og að Bláa lóninu. Bæjarstjóri gerði grein fyrir samkomulagi um skiptingu kostnaðar milli HS Orku, Bláa lónsins og Grindavíkurbæjar um stíginn frá Selskógi að Bláa lóninu. Bæjarráð fól bæjarstjóra að ganga frá verksamningum fyrir allt verkið.