Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Meira um hassneyslu í Keflavík en áður
Fimmtudagur 7. nóvember 2002 kl. 10:08

Meira um hassneyslu í Keflavík en áður

Í rannsóknarvinnu Víkurfrétta varðandi fíkniefnaheiminn á Suðurnesjum hefur verið rætt við nokkra aðila sem hafa selt og eru að selja fíkniefni á Suðurnesjum. Þeir aðilar sem selja fíkniefni eru yfirleitt neytendur sjálfir. Einn þessara aðila er 20 ára strákur sem hætti sölumennskunni fyrir nokkrum mánuðum.
Hann vill ekki láta nafns síns getið, en í þessu viðtali er hann kallaður Kalli. Hann hefur alla tíð búið í Keflavík, en er núna fluttur til Reykjavíkur. Kalli byrjaði að drekka áfengi þegar hann var 13 ára og prófaði fyrst að reykja hass þegar hann var 15 ára gamall: „Við vorum fjórir saman og ákváðum allir að kaupa okkur hass, eitt gramm hver og prófa að reykja. Alveg frá byrjun hef ég verið hrifinn af hassi og þegar ég var kominn í vímuna leið mér eins og ég væri kominn heim, mér leið svo vel,” segir Kalli og hann segir að uppfrá þessu hafi hann farið að reykja hass reglulega: „Ég fékk mér að reykja með vinum mínum svona tvisvar í mánuði, um helgar. Hassið var mjög ódýrt þá en „búturinn” (1 gramm) var selt á 1.500 krónur á þessum tíma.”
Þegar Kalli var 17 ára gamall fór hann að selja hass og þá aðallega til vina sinna: „Ég passaði mig á því að lána aldrei og sérstaklega ekki vinum mínum, því þegar einhver skuldar í fíkniefnaheiminum þá skiptir ekki máli þó hann sé vinur þinn. Maður verður að innheimta skuldirnar.“
Kalli hefur ákveðnar hugmyndir um hassið og finnst að það ætti að lögleiða það því hann telur að það myndi bæta ástandið. Hann hefur sjálfur neytt harðari efna, t.d. amfetamíns og e-pillur: „Ég er ekkert á móti kannabisneyslu þannig séð, en þetta er samt lúmskasta efnið því það veldur einangrunarleika og sá sem er að reykja einangrast með „hassvinum“, þú bara hverfur,“ segir Kalli og bætir því við að hann telji að lögleiða ætti kannabisefni: „Þú kannski byrjar að reykja hass sem er náttúrulega ólöglegt og þá umgengstu mikið þennan harða heim því þú þarft að redda þér hassi og það eru yfirleitt náungar sem eru í hörðum efnum sem eru að selja það. Aðalástæðan fyrir því að flestir prófa „spítt“ og „kúlur“ (e-pillur) er að þeim er boðið upp á þessi efni í fyrsta skipti af sölumönnum, því markaðssetningin er sterk í þessum bransa. Það er t.d. mjög algengt að sölumennirnir bjóði í partý og þar er allt vaðandi í efnum. Í þessum partýum er mikill þrýstingur á þig að fá þér í nös og maður hugsar með sér, „því ekki að fá sér í eina,“ segir Kalli og bætir við að partý eins og hann lýsti séu mjög algeng leið til markaðssetningar á fíkniefnum gagnvart ungu fólki.
Eins og áður segir byrjaði Kalli að selja fíkniefni þegar hann var 17 ára gamall og þegar hann var að byrja sagði hann að fleiri hefðu verið að selja en eru í dag: „Þegar ég byrjaði voru fleiri sölumenn hér á Suðurnesjum. Í dag er búið að koma upp bandalögum en þessi bandalög eru að selja miklu meira en áður. Það er meira um hassneyslu í Keflavík en áður var,“ segir Kalli.
Kalli hætti að selja fíkniefni fyrir 10 mánuðum síðan og hann segir að hans kúnnahópur hafi talið um það bil 80 manns og bara á Suðurnesjum: „Kerfið hjá mér virkaði þannig að þegar það var hringt í mig og ég beðinn um að selja viðkomandi, þá varð hann að nefna einhvern af mínum vinum. Ég seldi ekki hverjum sem var, enda hefði ég þá fljótt verið „böstaður”. Það er ótrúlegasta fólk í bænum sem er að kaupa fíkniefni, en það er langmest um það að fólk kaupi sér hass. Ég seldi ekki yngri krökkum en 17-18 ára, en síðan var ég að selja miðaldra fólki hass. Um helgar svaraði ég símanum til fimm eða sex á morgnana og var að selja þangað til. Ég seldi mikið af ellum (e-pillum) um helgar, kannski 20 töflur eða svo. Ég seldi oft um 50 grömm af hassi á einni helgi hér í bænum og hafði upp úr því 50 þúsund kall, en grammið er selt á 2.000 kall,” segir Kalli.
Kalli hefur ekki notað amfetamín og e-pillur í 10 mánuði, en hann fær sér ennþá að reykja hass: „Ég fæ mér öðru hverju í „haus“ og mér finnst það bara allt í lagi. En ég er hættur að selja og byrja ekki á því aftur,“ segir Kalli að lokum.

Myndin er sviðsett.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024